19.7.2012 23:20

Fimmtudagur 19. 07. 12

Hér á landi eru átök milli ríkisstjórnar og forseta um setningu laga eins og Icesave-málið sannar. Forseti og ríkisstjórn deila einnig um stjórnarskrána og hvernig standa skuli að breytingu á henni. Ríkisstjórnin hafði niðurstöðu hæstaréttar um ógildingu stjórnlagaþingkosningar að engu. Skipaði þá sem fengu flest atkvæði í stjórnlagaráð. Ríkisstjórnin ætlar að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur þessa stjórnlagaráðs og er markmið hennar meðal annars að þrengja svigrúm forseta Íslands og annarra til að gagnrýna efni tillagna sem eru ríkisstjórninni að skapi. Þjóðaratkvæðagreiðslan er í raun skoðanakönnun þar sem beðið er um svör við sex spurningum. Deilt er um hvort löglega sé staðið að ákvörðun um kjördag atkvæðagreiðslunnar.

Ríkisstjórnin sem kemur fram á þennan hátt við forseta Íslands og þjóðina alla við endurskoðun stjórnarskrárinnar hefur sótt um aðild að Evrópusambandinu. Innan þess ríkir nokkur spenna vegna stjórnarhátta í Ungverjalandi og Rúmeníu. Hér má lesa um það sem er að gerast í Rúmeníu og hvernig brugðist er við af framkvæmdastjórn ESB.

Það er undarlegt að stjórnarandstaðan á alþingi skuli ekki hafa kvartað til framkvæmdastjórnar ESB vegna framgöngu ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur í stjórnarskrármálinu og aðfarar hennar að forseta Íslands. Það á að krefjast úttektar af hálfu ESB á stjórnarháttum Jóhönnu Sigurðardóttur. Þá er ástæða til að vekja athygli Cristian dan Preda, trúnaðarmanns ESB-þingsins gagnvart Íslandi, á þróun mála hér. Hann er ESB-þingmaður frá Rúmeníu og stuðningsmaður forsetans sem nú er níðst á þar.