24.7.2012 22:50

Þriðjudagur 24. 07. 12

Morgunblaðið  segir frá því í dag að Halldór Jóhannsson, umboðsmaður Huangs Nubos, hafi unnið að því að skipuleggja stórskipahöfn við Langanes. Það var tímabært að þessi frétt birtist á áberandi stað í víðlesnu blaði. Í nýjasta hefti af Þjóðmálum er vitnað til samantektar Láru Hönnu Einarsdóttur sem hefur tekið saman mikið efni um Huang Nubo og birt á bloggi sínu á eyjan.is. Hún fjallaði um Halldór Jóhannsson á síðu sinni 10. maí eins og sjá má hér.

Lára Hanna segir einnig frá því í nýjum pistli á síðu sinni hvernig Steingrímur J. Sigfússon hefur látið undan öllum óskum vegna Huangs og lýsir þeim hafsjó af kennitölum sem út hafa verið gefnar til að gera honum kleift að laga sig að íslenskum kröfum.

Þeir sem lesa úttektir Þjóðmála um Huang Nubo hljóta að sannfærast um að hann hagar seglum eftir vindi í öllu sem hann segir um Ísland og honum er það auðvelt því að hann hefur aldrei lagt fram neitt sem er skuldbindandi fyrir hann. Þetta er allt í nösunum á honum til þess að láta reyna á hve eftirgefanleg íslensk stjórnvöld eru þegar rætt er við einhverja fulltrúa þeirra um gull og græna skóga.

Huang hreiðraði fyrst um sig meðal samfylkingarfólks og naut stuðnings sendiráðs Íslands í Peking. Nú hefur hann málsvara meðal sveitarstjórnarmanna í sex sveitarfélögum á norðausturhorni landsins auk þess sem Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar vinnur fyrir hann og Halldór Jóhannsson sem á sínum tíma stóð að misheppnaðri lakkrísverksmiðju í Kína.

Guðmundur Vilhjálmsson, eigandi jarðarinnar Syðra-Lóns, í nágrenni Þórshafnar hefur í tvö ár átt í málaferlum við sveitarstjórn Langanesbyggðar og lýsir þeim á þennan hátt í Morgunblaðinu í dag:

 „Ef sveitarstjórnirnar hefðu borið gæfu til að vaða ekki yfir eignarrétt landeigenda og ef þær hefðu ekki beitt leiðinlegum starfsaðferðum, eins og að gera mönnum ekki fyllilega ljóst hvaða réttarstöðu þeir hefðu, væri málið ef til vill ekki í jafnslæmum farvegi. Eins og staðan er í dag munu landeigendur á svæðinu ekki vilja láta land sitt undir stóriðjustarfsemi,« segir Guðmundur og gagnrýnir vinnubrögð Halldórs Jóhannssonar, talsmanns Huang Nubo og skipulagsráðgjafa Langanesbyggðar. »Skipulagning og markaðssetning, þ.m.t. erlendis, hefur verið í óþökk landeigenda. Það hlýtur að vera sérstakt að eignir fólks skuli vera markaðssettar að því forspurðu. Kínverjarnir eru að leita að athafnasvæðum.“

Hve lengi á þessi stjórnsýsla í þágu Huangs Nubos að líðast? Ber sveitarfélögum ekki að virða eignarrétt við gerð skipulags? Er leyfilagt að hafa hann almennt að engu eða aðeins þegar Kínverjar eiga í hlut?