2.7.2012 23:00

Mánudagur 02. 07. 12

Íslendingar voru ekki eina EES/EFTA-þjóðin sem veitti þjóðhöfðingja sínum stuðning um helgina. Í gær greiddu íbúar í furstadæminu Liechtenstein atkvæði um hvort takamarka ætti völd prinsins,  þjóðhöfðingja landsins.  Alls voru 76,1% þeirra á móti því. Alois krónprins sem var skipaður þjóðhöfðingi af föður sínum Hans-Adam II árið 2004 hafði hótað að segja af sér völdum ef kjósendur hefðu ákveðið að svipta hann neitunarvaldinu sem mælt er fyrir um í stjórnarskránni. Forbes metur eignir fjölskyldu furstans á 5 milljarða dollara. Hún hefur farið með völd í landinu í 300 ár. Alls greiddu 82,9% atkvæði. Krafan um að takmarka völd prinsins fékk byr undir báða vængi þegar Alois (43 ára) hótaði að beita neitunarvaldi gegn lögum sem heimila fóstureyðingu. Íbúar í Liechtenstein sem er landræma við Rín milli Sviss og Austurríkis eru 36.000. Lífskjör eru með þeim bestu í heimi í landinu.

Ýmsum þykir nóg um það hér á landi að veita þjóðhöfðingja umboð til 20 ára. Í Liechtenstein sjá menn ekkert að því að sama fjölskyldan eigi úrslitavald í málefnum þeirra í 300 ár.

Athyglisvert er að í upphafi kosningabaráttunnar hér töldu andstæðingar Ólafs Ragnars að 16 ára seta hans í embætti væri snöggur blettur á honum. Að lokinni baráttunni segir Þóra Arnórsdóttir að hún sé sæl með að hafa fengið rúmlega 30% atkvæða í baráttu gegn manni með 16 ára forsetareynslu að baki. Henni finnst greinilega ekki á allra færi að ná slíkum árangri.

Ólafur Ragnar áréttar andstöðu sína við ESB aðild að kosningum loknum eins og sagt er frá hér á Evrópuvaktinni.