23.7.2012 22:00

Mánudagur 23. 07. 12

Á ruv.is má lesa í dag:

„Laumufarþegi fannst nýlega um borð í rannsóknarskipinu Knorr sem hafði viðkomu á Íslandi um miðjan júlí. Laumufarþeginn er nú í haldi um borð í skipinu eftir því sem best er vitað og óvíst er hvað verður um hann.

Ekki er heldur vitað hver laumufarþeginn er eða hvort hann hafi verið hælisleitandi á Íslandi.

Talið var að hann hefði komið um borð í skipið þegar það tók olíu í Örfirisey en nú hefur komið í ljós að hann komst um borð í skipið þegar það lá við Miðbakka.“

Föstudaginn 20. júlí mátti lesa á visir.is samtal við mennina tvo sem reyndu að smygla sér úr landi í Icelandair-flugvél. Þeir sögðust reyna allt sem þeir gætu til þess að laumast úr landi með skipi:

 „Það er bara ein hugsun sem kemst að hjá okkur. Við þurfum að komast burt. Hér erum við í búri. Alveg eins og páfagaukur í búri," sagði annar piltanna við visir.is og þeir sögðu að félaga sínum hefði tekist að lauma sér um borð í skip. „Núna er vinur okkar á leið til Ameríku í skipi,“ sögðu þeir.

Knorr er bandarískt rannsóknarskip.

Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskips, segir í Morgunblaðinu í dag:

,,Þetta hefur ekkert með þá innflytjendur sem sækja um pólitískt hæli að gera. Þetta eru menn sem nota landið sem stökkpall til þess að komast til annarra landa. Það er orðið brandari hvernig yfirvöld taka á þeim. Þeir hafa jafnvel sótt um hæli og fá greidda framfærslupeninga frá íslenskum skattgreiðendum. Þessa peninga nota þeir svo til þess að brjóta alþjóðalög og reyna að komast úr landi. Svo er ekkert gert til þess að reyna að hindra þetta.“

Hér er lýst afleiðingum stefnu sem vinstri-grænir telja rós í hnappi sínum og innanríkisráðherrans.