11.7.2012 22:17

Miðvikudagur 11. 07. 12

Í dag ræddi ég við Skafta Harðarson, formann Samtaka skattgreiðenda, í þætti mínum á ÍNN . Skafti lýsti áformum félagsins sem mun láta að sér kveða í sumarlok og beita sér í prófkjörum stjórnmálaflokkanna og í komandi þingkosningum. Við minntumst meðal annars þá kenningu sem málsvarar ríkisstjórnarinnar spinna núna um að skattastefna hennar veki aðdáun annarra sem leið úr kreppunni. Vafalaust trúa spunaliðarnir þessu sjálfir.

Í dag barst hins vegar enn ein staðfestingin á því að ákvarðanir sem ríkisstjórn Geirs H.Haarde tók haustið 2008 um björgunaraðgerðir í bankahruninu samrýmdust EES-samningnum. Þessi niðurstaða Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) var kynnt í dag.

ESA felldi í dag tvo úrskurði sem snúa að bankahruninu. Annar snýr að aðstoð sem Arion banki og Landsbankinn fengu þá ríkinu þegar bankakerfið var endurreist. Báðir bankarnir fengu eiginfjárframlag frá ríkinu, en Arion banki fékk auk þess víkjandi lán og lausafjárfyrirgreiðslu. 

Hinn úrskurðurinn fjallar um slit peningamarkaðssjóða Glitnis, Landsbankans og Kaupþings. Vegna mikils taps og áhlaups á sjóðina haustið 2008 gaf Fjármálaeftirlitið út tilmæli um að sjóðirnir skyldu gerðir upp. Því keyptu bankarnir skuldabréf af sjóðunum og greiddu þeim sem höfðu fjárfest í þeim út á milli 60 og 85 prósent af virði eignar sinnar.

Í báðum tilvikum telur stofnunin að aðgerðir stjórnvalda feli í sér ríkisaðstoð. Þrátt fyrir það samræmist þær EES-samningnum, enda falli þær undir sérstaka undanþágu sem heimili að samþykkja megi slíka aðstoð til að ráða bót á alvarlegri röskun á efnahagslífi EES-ríkis.

Þessar aðgerðir ríkisstjórnar Geirs H. Haarde skipta miklu meira máli þegar rætt er um leið Íslendinga úr hruninu en skattahækkanir Jóhönnu og Steingríms J.

Það er grátbroslegt að rætt skuli við Steingrím J. Sigfússon um niðurstöðu ESA eins og hann hafi átt hlut að ákvörðunum sem fengu hinn jákvæða dóm. Sjálfumgleði Steingríms J. kemur hins vegar ekki á óvart.