20.7.2012 22:05

Föstudagur 20. 07. 12

Álfheiður Ingadóttir, þingmaður vinstri-grænna, skrifaði á vefsíðu 3. júlí 2012:

„Þegar ný ríkisstjórn tók við 2009 varð sannarlega alger viðsnúningur í málefnum hælisleitenda en enn er þó langt í land.“ Það sem felst í lokaorðum Álfheiðar er að ekki sé nóg að gert til að auðvelda hælisleitendum að koma til Íslands og fá hér hraða og jákvæða afgreiðslu á málum sínum. Greinina skrifaði hún í tilefni af því að Mohammad Askarpour, flóttamaður frá Íran sem hér hefur verið með einu hléi síðan 2009, var lagður inn á sjúkrahús í júní 2012 „þungt haldinn á líkama og geði,“ sagði á ruv.is 21. júní 2012 og lögmaður hans, Katrín Oddsdóttir,  sagði að hann mundi aldrei ná sér „að fullu og því verði höfðað mál gegn íslenska ríkinu vegna þess tjóns sem ómannleg og vanvirðandi meðferð hafi valdið, sem jafnist á við pyntingar“.

Á ruv.is má lesa í dag að aðstandandi Mohammads Askarpours segi að meðferðin sem hann hljóti hér á landi líkist pyntingum. Sífellt dragist að svara beiðni mannsins um hæli og heilsu hans hraki á meðan. Fréttin birtist í tilefni af því að fjögurra vikna frestur sem útlendingastofnun sagðist þurfa til afgreiðslu á máli Askarpours rann út í gær án þess að niðurstaða lægi fyrir en útlendingastofnun segist enn þurfa að vinna úr gögnum sem til hennar bárust.

Hér skal ekki fjallað efnislega um þetta mál. Hins vegar skal ítrekað sem ég hef áður sagt að afgreiðsluhraði mála af þessu tagi ræðst ekki síst af samstarfsvilja hælisleitandans. Sé hann ekki samstarfsfús og leggi hann ekki fram nógu haldgóð gögn ósk sinni um hælisvist til stuðnings tefur það óhjákvæmilega afgreiðslu málsins hjá útlendingastofnun.  Hitt er síðan ljóst að Askarpour nýtur stuðnings áhrifafólks í röðum VG, flokks Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra, eins og grein Álfheiðar Ingadóttur sýnir. Að halda því fram að hælisleitandi með slíka bakvarðasveit sé illa settur er öfugmæli.

Sama dag og ruv.is birti fréttina um Askarpour mátti lesa á visir.is samtal við mennina tvo sem reyndu að smygla sér úr landi í Icelandair-flugvél. Þeir reyna nú allt sem þeir geta til þess að laumast úr landi með skipi:

 „Það er bara ein hugsun sem kemst að hjá okkur. Við þurfum að komast burt. Hér erum við í búri. Alveg eins og páfagaukur í búri," segir annar piltanna við visir.is

Þess skal getið að starfsmenn útlendingastofnunar vinna baki brotnu að því að leggja mat á hælisbeiðni þessara tveggja manna. Ísland er ekki upphafsland þeirra félaga á Schengen-svæðinu. Hvers vegna er ekki reglum innan svæðisins beitt og þessir ungu menn fluttir til upphafslandsins svo að stjórnvöld þar geti úrskurðað um beiðni þeirra?