6.7.2012 23:20

Föstudagur 06. 07. 12

Mikil umferð var um Selfoss í dag og alla leið austur að Hvolsvelli. Selfoss er tappi á leiðinni en um langt árabil hefur verið rætt um að færa brúna yfir Ölfusá austur fyrir meginbyggðina á Selfossi. Þá hefur verið kynnt ný verslanamiðstöð fyrir norðan Ölfusá þar sem nýir vegir mætast við breytingarnar með flutningi brúarinnar. Selfoss er nú slík miðstöð fyrir Suðurland og þar hafa allar helstu verslanakeðjur aðsetur – Hagkaup og Bónus hafa nýlega komið sér fyrir í nýju stórhýsi í austurhluta bæjarins, þar skammt frá er Byko í tiltölulega nýrri stórbyggingu.

Óli Björn Kárason hefur lengi haldið úti vefsíðu og verið naskur á fréttir og ritað góða pistla. Nú hefur hann breytt vefsíðu sinni eins og sjá má hér.