29.7.2012 20:53

Sunnudagur 29. 07. 12

 

 

Árleg hátíð var haldin í Reykholti í Borgarfirði í dag. Vígður var nýr kross við kirkjuna og séra Geir Waage söng messu. Þá lauk tónlistarhátíðinni á staðnum. Í kjallara kirkjunnar hefur verið opnuð ný sýning um Snorra Sturluson, samtíð hans og sögu Reykholts. Sífellt fleiri ferðamenn sækja Reykholt heim og kynnast framlagi Snorra til heimsmenningarinnar og mikilvægum þætti í Íslandssögunni.

Lýsing mín á reglum sem gilda á Schengen-svæðinu um málefni hælisleitenda og leiðir til að herða eftirlit á landamærum hafa meðal annars vakið þau viðbrögð að þar sé lýst „fasískum“ skoðunum. Þá er sagt að stuðningur við „hælisleitendur“ á Íslandi, þá sem leggja allt kapp á að komast héðan sé „mannúð“. Loks er varað við því að tekist verði á um þessi mál í komandi þingkosningum.

Þessi viðbrögð eru ekki annað en sjúkdómseinkenni brenglaðrar umræðuhefðar.

Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG, sagði 3. júlí 2012 á vefsíðu: „Þegar ný ríkisstjórn tók við 2009 varð sannarlega alger viðsnúningur í málefnum hælisleitenda en enn er þó langt í land.“ Hvers vegna eru menn andvígir því að tekist sé á um þetta mál í þingkosningum? Á ekki að ræða öllu stefnumál fyrir kosningar? Hvers vegna má ekki ræða stefnubreytinguna sem varð 2009? „Alger viðsnúningur“ að mati Álfheiðar – á hann að liggja í þagnargildi? Kannski af mannúðarástæðum? Álfheiður segir að enn sé „þó langt í land“. Mega kjósendur ekki vita fyrir kosningar hvað felst í þessum orðum?

Rétthugsun í þessum málaflokki er að ekki má ræða „algjöran viðsnúning í málefnum hælisleitenda“ af því að hann snýst um „mannúð“ í þágu manna sem talið er að gerist hvað eftir annað sekir um lögbrot við tilraunir til að komast úr landi. Er ekki betra að halda sig við heilbrigða skynsemi en rétthugsunina?