25.7.2012 23:12

Miðvikudagur 25. 07. 12

Í dag ræddi ég við Birgi Ármannsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, í þætti mínum á ÍNN. Við ræddum breytingar á stjórnarskránni sem hafa verið á döfinni frá því að Jóhanna Sigurðardóttir varð forsætisráðherra 1. febrúar 2009.

Spurning er hvort þetta stjórnarskrárbrölt Jóhönnu og þeirra sem henni fylgja verði neðanmálsgrein í sögu stjórnarskrármálsins eða leiði til einhverra breytinga. Bröltið hefur kostað þjóðina stórfé en líkur á að það skili einhverri efnislegri niðurstöðu eru litlar. Tillögur stjórnlagaráðs eru ósamstæðar og alls ekki nein samstaða um þær utan ráðsins. Meirihluti alþingis hefur forðast að ræða tillögurnar efnislega. Hver er skoðun sjálfrar Jóhönnu á þeim? Það veit enginn – líklega ekki einu sinni hún sjálf.

Að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um sex spurningar er skrípaleikur sem kostar 250 milljónir króna. Til að stjórnarskránni verði breytt þarf þrjár umræður um frumvarp til stjórnskipunarlaga með atkvæðagreiðslu í lokin fyrir kosningar í apríl á næsta ári og síðan verður nýtt þing, sem kosið verður þá, að samþykkja lögin. Þetta markmið næst ekki nema víðtæk samstaða verði á alþingi. Jóhanna er andvíg slíkri samtöðu. Hún vill nota stjórnarskrána eins og annað til að berja á Sjálfstæðisflokknum.

Áhugamenn um að þjóðin hafi skoðun á þessu máli og láti hana í ljós verða að leggja hart að sér til að kosningaþátttaka verði viðunandi. Í hinum ógildu stjórnlagaþingkosningum í nóvember 2010 var þátttakan  36,77%  en frambjóðendur voru 523 og hvöttu að minnsta kosti sína nánustu til að kjósa sig.

Hverjir munu nú hafa hag af því að hvetja til þátttöku í þjóðarskoðanakönnuninni? Svo virðist sem það séu helst þeir 25 sem sátu í stjórnlagaráði eða hluti þeirra. Ég heyri ekki betur en í þeim hópi búi menn sig undir dræma þátttöku og tali nú um að hún ráði engum úrslitum um gildi könnunarinnar. Er það svo? Ég held ekki.

Það yrði eftir öðru í þessu máli að þeir sem sömdu tillögur að nýrri stjórnarskrá eftir að hafa verið valdir í ógildri kosningu hefðu hæst um nauðsyn þess að þjóðin segði álit sitt á sköpunarverki þeirra í kosningu þar sem kjördagur er ákveðinn með því að fara á svig við lög um þjóðaratkvæðagreiðslur.