5.7.2012 22:30

Fimmtudagur 05. 07. 12

Skrif breskra blaða um vaxtasvindlið í Barclays banka og ástæður þess minna ekki á neitt annað en það sem sagt var hér á landi eftir að skýrsla rannsóknarnefndar alþingis birtist. Annars vegar eiga menn ekki nægilega sterk orð til að lýsa hneykslan sinni á framgöngu bankamanna sem hafi látið stjórnast af hreinni græðgi. Hins vegar er velt fyrir sér tengslum bankamanna við breska embættismenn. Vangaveltur eru um að vaxtasvindlið hafi verið stundað með vitund manna í breska stjórnarráðinu eða breska seðlabankanum. Athyglin beinist í fyrstu atrennu að bankamönnunum en mun færast yfir á embættis- og stjórnmálamenn.

Verkamannaflokkurinn var við völd í Bretlandi þegar bankamenn fiktuðu við millibankavexti og skiptust á tölvubréfum um að þeir yrðu að þakka viðmælendum sínum eða viðsemjendum og bjóða þeim að skála í Bollinger kampavíni fyrir greiðan. George Osborne, núverandi fjármálaráðherra Íhaldsflokksins, hefur látið svo þung orð falla vegna málsins í garð Verkamannaflokksins að vikublaðið The Spectator sem stendur með Íhaldsflokknum telur að hann hafi jafnvel gert formann þingmannanefndarinnar sem stjórnar opnum yfirheyrslum vegna vaxtasvindlisins vanhæfan; það verði svo auðvelt að sýna að hann stjórnist meira af flokkspólitískum sjónarmiðum en vilja til að upplýsa málið á hlutlægan hátt.

Hér hefur ríkisstjórn lifað og lafað í krafti óvildar í garð þeirra sem sátu við stjórnvölinn haustið 2008. Alltaf þegar í harðbakka slær hefst reiðilesturinn um að duglausir stjórnarherrarnir nú séu betri en  þeir sem stjórnuðu og tóku réttar ákvarðanir þegar fjármálakerfi heimsins féll  og þrír stærstu bankar þjóðarinnar sungu sitt síðasta. Í þessum anda var Geir H. Haarde að ósekju dreginn fyrir landsdóm vegna ákæru pólitískra andstæðinga sinna. Í Bretlandi hefði slík ákæra þótt marklaus þyki formaður í rannsóknarnefnd sem starfar fyrir opnum tjöldum innan vébanda breska þingsins vanhæfur vegna pólitískra ummæla flokksbróður hans, fjármálaráðherrans.