19.7.2012 22:41

Fimmtudagur 26. 07. 12

Besti flokkurinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að besta leiðin til að auka viðskipti í miðborginni sé að stórhækka stöðumælagjöld. Það muni auka umferð um miðborgina af því að menn dveljist þar skemur vegna kostnaðar við dvölina. Kaupmenn telja á hinn bóginn að þetta þrengi enn frekar að almennri verslunarþjónustu í miðborginni.

Besti flokkurinn og Samfylkingin glíma við mikinn skipulagsvanda við suðurenda Ingólfstorgs vegna krafna húseiganda þar um að fá að nýta byggingarrétt sinn. Meirihluti borgarstjórnar er sakaður um að vega þar að borgarmyndinni. Nú situr hann undir ásökunum um að vega að verslunar- og þjónustustarfsemi í miðborginni.

Athyglisvert er að í hvorugu málinu tekur Jón Gnarr borgarstjóri til máls og skýrir málstað meirihlutans fyrir borgarbúum. Leitin að honum sem málsvara borgarbúa ber engan árangur.