9.7.2012 19:40

Mánudagur 09. 07. 12

Nú má sjá viðtal sem ég tók við Guðna Th. Jóhannesson sagnfræðing á ÍNN um úrslit forsetakosninganna og þróun forsetaembættisins á netinu. Hér er unnt að sjá viðtalið.

Isavia sendi frá sér tilkynningu í dag um það sem fór úrskeiðis þegar tveimur hælisleitendum tókst að smygla sér inn á Keflavíkurflugvöll og inn í flugvél Icelandair til Kaupmannahafnar þar sem flugliðar fundu þá á salerni.

„Við skoðun á verklagi öryggisstarfsmanna Isavia á þeim tíma er viðkomandi atvik átti sér stað kemur ekkert athugavert í ljós við störf þeirra. Hælisleitendurnir hafa greinilega verið vel skipulagðir.“ Þetta segir í tilkynningu frá Isavia um atvikið sem kom upp á Keflavíkurflugvelli um helgina aðfaranótt sunnudags 8. júlí.

Þessi setning vekur þá spurningu hvort viðbúnaður á flugvellinum eigi ekki að duga til að koma í veg fyrir að menn komist óséðir inn í flugvél þótt þeir séu „vel skipulagðir“. Í þessu tilviki er um hælisleitendur að ræða sem lugu til um aldur sinn við komu til landsins og dvöldust í félagslegu skjóli í Reykjanesbæ.

 „Ljóst er að mennirnir fóru ekki í gegnum öryggishlið inn á flugvallarsvæðið né í gegnum Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Fóru þeir yfir girðingu inn á svæðið og þaðan inn á flughlaðið við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Öryggisdeild Isavia, sem fer með öryggis- og flugverndarmál á Keflavíkurflugvelli, starfar eftir mjög ströngu verklagi sem samþykkt er af Flugmálastjórn Íslands,“ segir einnig í tilkynningu Isavia og má spyrja hvort orðin eigi að skilja á þann veg að flugmálastjórn geri ekki nægilega strangar kröfur.

Í fréttum kom fram að útlendingastofnun mundi halda áfram vinnu við mat á því hvort taka skuli beiðni hælisleitendanna til greina og veita þeim hæli hér á landi sem pólitískum flóttamönnum.

Ef öryggiskerfi Keflavíkurflugvallar virkar þótt tveimur hælisleitendum takist að smygla sér inn í flugvél með því að laumast yfir girðingu er eitthvað bogið við kerfið. Ef haldið er áfram að rannsaka hvort veita eigi þeim sem stunda lögbrot til að komast úr landi hæli hér sem pólitískum flóttamönnum er eitthvað bogið við kerfið.