8.7.2012 21:10

Sunnudagur 08. 07. 10

Þá má telja á fingrum annarrar handar sem taka upp hanskann fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur, formann Samfylkingarinnar og forsætisráðherra, opinberlega. Einn þeirra er Stefán Ólafsson. Hann kynnir sig á þennan hátt á vefsíðu sinni: „Ég er prófessor við Háskóla Íslands. Blogga hér til að miðla upplýsingum og taka afstöðu til málefna. Er óflokksbundinn og óháður öllum samtökum.“

Stefán heldur ekki aðeins fram málstað Jóhönnu heldur einnig Samfylkingarinnar og Evrópusambandsins. Þá er honum í nöp við nokkrar vefsíður, meðal annars Evrópuvaktina sem við Styrmir Gunnarsson höfum haldið úti síðan í apríl 2010. Um hana segir hann í bloggi sínu á Eyjunni í dag:

„Styrmir Gunnarsson og Björn Bjarnason skrifa reglulega á vefsíðu sem kallast Evrópuvaktin. Meginverkefni þeirra virðist vera að segja eitthvað niðrandi og hrollvekjandi um Evrópusambandið, minnst tvisvar á dag.“

Tvisvar á dag og raunar miklu oftar birtum við Styrmir fréttir af því sem er á döfinni í ríkjum Evrópusambandsins og á vettvangi þess. Þá snúast fréttirnar mjög um leiðir til að bjarga kjarna ESB: samstarfinu um evruna. Þetta er meginefni síðunnar þá ritum við leiðara undir nafni og þrjá skoðanadálka sem heita: Stjórnmálavaktin, Viðskiptavaktin og Í pottinum. Auk þess birtast pistlar af og til á síðunni eftir okkur Styrmi eða þá sem senda okkur greinar.

Af orðum Stefáns mætti ætla að „eitthvað niðrandi og hrollvekjandi um Evrópusambandið“ væri frumsmíð Evrópuvaktarinnar. Ekkert er fjær sanni. Um er að ræða fréttir úr virtum fjölmiðlum fjölda landa þar sem lýst er framvindu mála innan ESB. Vissulega er rétt hjá Stefáni að þróunin er „hrollvekjandi“ fyrir þá sem stjórna ESB og aðildarríkjum þess svo að ekki sé minnst á ESB-þjóðirnar. Væri um hugarsmíð Evrópuvaktarinnar að ræða mætti taka fréttunum á þann veg sem Stefán kýs að gera. Málum er því miður ekki þannig háttað. Lúsarleit í bestu blöðum Evrópu sýnir að þeir eru jafnvel færri þar sem styðja störf og stefnu evru-ríkjanna opinberlega en lýsa yfir opinberum stuðningi við Jóhönnu Sigurðardóttur hér á landi. Að draga fram þá staðreynd kann Stefáni að þykja „niðrandi“. Hún breytist þó ekki við það.

Stefán lýsir sér sem óflokksbundnum og óháðum. Hann kemur því fram á opinberan vettvang undir sama gunnfána og ríkisútvarpið. Víglínan sem hann dregur er hin sama og gert er í Efstaleiti og handan hennar sjá Stefán og stjórnendur ríkisútvarpsins sömu ófreskjurnar. Góðvinur þeirra í Efstaleiti og samkennari Stefáns kallaði þetta „skrímsladeild“ Sjálfstæðisflokksins að loknum margra ára rannsóknum.