18.7.2012 16:30

Miðvikudagur 18. 07. 12

Í dag ræddi ég við Erlend Magnússon framkvæmdastjóra í þætti mínum á ÍNN. Hann ritaði grein um gjaldmiðlamál í nýjasta hefti Þjóðmála auk þess sem hann er vel að sér um þróun mála innan Evrópusambandsins. Þáttinn má sjá klukkan 20.00 og 22.00. Hann verður sýndur á tveggja tíma fresti fram til 18.00 á morgun.

Þáttur minn á ÍNN frá því í síðustu viku þegar ég ræddi við Skafta Harðarson, formann Samtaka skattgreiðenda, er kominn á netið eins og sjá má hér.

Hið virta þýska viðskiptablað, Handelsblatt, birtir í dag frásögn af andstöðu íslensks almennings og annarra stjórnmálaflokka en Samfylkingarinnar við ESB-aðild. Blaðið vitnar í Þóru Arnórsdóttur sem segir Íslendinga eðlilega ekki hafa áhuga á að setjast að í „brennandi hóteli“ ESB. Segir blaðið að Þóra og Ólafur Ragnar hafi samtals fengið stuðning 85% kjósenda í nýlegum forsetakosningum og bæði séu andvíg ESB-aðild. Enginn sé til að halda uppi vörnum fyrir aðild nema einmana þingmenn Samfylkingarinnar. Lesa má þýðingu á frásögninni í Handelsblatt hér.