12.7.2012

Makríll IV: ESB skapar sér vígstöðu

Makríll IV lokagrein af Evrópuvaktinni


Hinn 10. júní 2010 birtist frétt á vefsíðunni fishupdate.com um að skoski ESB-þingmaðurinn Struan Stevenson hefð snúið sér til Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra ESB, á málþingi á vegum ESB-þingsins í Brussel og hvatt hana til að láta ekki undan kröfum Íslendinga og Færeyinga í makríldeilunni. Þingmaðurinn sagði að ákvarðanir stjórnvalda í Reykjavík og Þórshöfn um að makrílkvóta (130.000 tonn hvort ríki) væru algjörlega ábyrgðarlausar og jafngiltu því að efnt yrði ólöglegra veiða:

„Ég er undrandi á því að Íslendingar biðji okkur um að draga fram rauða dregilinn og fagna sér sem aðilum að ESB, þakkir þeirra felast í því að neita að greiða skuldir sínar, loka loftrými okkar vikum saman með eldfjallaösku og reyna nú að eyðileggja makrílveiðar okkar!

Þetta er fyrir neðan allar hellur og ég treysti því að framkvæmdastjórnin segi þeim afdráttarlaust að ESB láti ekki undan í þessu máli og við samþykkjum ekki svo ábyrgðarlausa framkomu?“

Maria Damanaki svaraði þingmanninum meðal annars með þessum orðum: „Vilji Íslendingar ganga í ESB og hafa aðgang að auðlindum okkar verða þeir að hlíta reglum okkar.“ Hún lét einnig orð falla um að hún stefndi að því að fara til Íslands innan skamms og þá mundi hún ræða þetta mál á æðstu stöðum. Sjávarútvegsstjórinn heimsótti Ísland ekki fyrr en tveimur árum síðar og flutti þá þennan sama boðskap með refsivönd í hendi.

Þingmenn tengja makríl og aðild

Orðaskiptin sumarið 2010 sýna að það líkist helst þráhyggju að halda því fram árum saman að ekki séu tengsl á milli makríldeilunnar og ESB-aðildarumsóknar Íslendinga. Afstaða ESB-þingsins er skýr í málinu. Þingmenn krefjast uppgjafar Íslendinga, engin þjóð kemst inn í ESB án þess að ESB-þingið samþykki aðildina.

Nýjasta yfirlýsing ESB-þingsins um aðild Íslands að ESB er frá 14. mars 2012. Þar er vikið að makríldeilunni á þann veg að ekki fer á milli mála að þingmenn munu gera lausn hennar að úrslitaatriði komi aðildarniðurstaða vegna Íslands til kasta þeirra.

Það eru ekki aðeins ESB-þingmenn sem hafa þessa afstöðu. Alistair Carmichael, þingmaður fyrir Orkneyjar og Hjaltlandseyjar fyrir Frjálslynda flokkinn á breska þinginu síðan 2001, hefur krafist þess að litið sé á makríldeiluna við Íslendinga sem hluta af ESB-aðildarviðræðum Íslendinga.

Þingmaðurinn lýsti þessari skoðun sinni á fundi í Brussel með embættismönnum úr sjávarútvegsdeild ESB og breskum embættismönnum. Hann sagði frá þessu á vefsíðu sinni 25. maí 2012:

„Makríll er verðmætasti afli skoskra skipa. Það hefur frá upphafi deilunnar verið ljóst að ákvörðun Íslendinga um að auka kvóta sinn einhliða hefði djúpstæð og langvinn áhrif á þessar veiðar.

Ríki verða ekki aðilar að Evrópusambandinu án þess að taka á sig ákveðnar skyldur og ábyrgð. Íslendingar verða að átta sig á því að með því að neita að semja um málið kalla þeir á viðbrögð. Það verður að gera Íslendingum ljóst að þeir fá ekki að ganga í klúbbinn vilji þeir ekki fara að reglum hans.

Ég mun skrifa til Evrópuráðherrans og árétta mikilvægi málsins fyrir eyjarnar í norðri og hvetja hann til þess að tryggja að makrílmálinu verði ekki sópað undir teppið þegar rætt er um aðild við Íslendinga.“

Struan Stevenson er í breska Íhaldsflokknum og Alistair Carmichael í Frjálsynda flokknum en saman mynda flokkarnir ríkisstjórn Bretlands. Að ímynda sér að afstaða þeirra hafi ekki áhrif innan eigin flokka er barnaskapur.

Sjávarútvegsnefnd ESB-þingsins þar sem írski þingmaðurinn Pat the Cope Gallagher hefur forystu vill beita ýtrustu hörku gagnvart Íslendingum eins og Gallagher kynnti hér á landi í byrjun apríl 2012 þegar haldinn var fundur í sameiginlegri þingmannanefnd Íslands og ESB. Gallagher er formaður ESB-hluta nefndarinnar.

Á fundi í Þjóðmenningarhúsinu 3. apríl 2012 lýsti Gallagher tillögum sínum um að ESB-þingið mundi herða refsireglur sem framkvæmdastjórn ESB hefði samið og sent þinginu og ráðherraráðinu til umsagnar.

ESB-þingmenn samþykkja refsireglur

Gallhager hafði sitt fram á ESB-þinginu. Sjávarútvegsnefnd þess samþykkti 24. apríl 2012 tillögu framkvæmdastjórnarinnar um reglur sem heimila sérstakar aðgerðir í þágu fiskverndar gegn ríkjum sem leyfa ósjálfbærar veiðar. Engin ríki eru nefnd í tillögunni en henni er meðal annars ætlað að stöðva makrílveiðar Íslendinga og Færeyinga enda semji þjóðirnar ekki við Evrópusambandið. Þingmennirnir vilja víðtækara viðskiptabann gegn brotlegum ríkjum en lagt var til af framkvæmdastjórn ESB.

Pat the Cope Gallagher samdi álit á tillögu framkvæmastjórnarinnar í sjávarútvegsnefndinni. Þar segir að Evrópusambandið þurfi að geta stuðst við viðunandi löggjöf til að sporna gegn ítrekuðum brotum strandríkja á hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna (SÞ) og samkomulagi SÞ um fiskistofna og einhliða aðgerðum sem stefnt sé gegn samstarfi í samræmi við svæðisbundin samtök um stjórn á flökkustofnum, ESB verði að geta tekið á þeim þjóðum sem sýni ekki samstarfsvilja á þessu sviði.

Það verði að bregðast af þunga við öllum augljósum viljaskorti til samstarfs sem sé skylt innan umsaminna marka, að öðrum kosti sé hætta á því að ekki verði aðeins unnið gegn fiskveiðihagsmunum ESB heldur gengið of nærri fiskstofnum, þótt önnur strandríki haldi aftur af veiðum sínum.

„Það er ábatasamt að flytja sjávarafurðir á ESB-markað,“ segir í áliti Gallaghers þess vegna sé ábyrgð þeirra sem ráða yfir þeim markaði mikil þegar hugað sé að sjálfbærum veiðum og virðingu fyrir þeim skyldum sem rekja megi til sameiginlegrar stjórnar á flökkustofnum. Af þeim sökum sé nauðsynlegt að láta ESB í té virk tæki til að grípa til aðgerða gegn sérhverju ríki sem skorist undan að axla slíka ábyrgð eða taki ekki þátt í sameiginlegum aðgerðum til að hrinda í framkvæmd umsömdum reglum um stjórn veiða í því skyni að sporna gegn ósjálfbærum veiðum.

Pat the Cope Gallagher skýrði frá því 27. júní 2012 að fulltrúar ESB-þingsins og dönsku formennskunnar í ráðherraráði ESB hefðu náð samkomulagi um refsiaðgerðir gegn ríkjum sem stunda ósjálfbærar veiðar.

Gallagher fagnaði niðurstöðunni með þessum orðum:

„Ég er eindregið þeirrar skoðunar að á grundvelli þessa texta megi bæði grípa til nothæfs og virks viðskiptabanns sem muni hafa raunverulegan fælingarmátt gagnvart þjóðum sem stunda nú ósjálfbærar veiðar og hafa í huga að gera það í framtíðinni.

Makríldeilan á Norðaustur-Atlantshafi er undirrót þessara nýju reglna. Ég vona þó að aldrei þurfi að grípa til þeirra gegn Íslendingum og Færeyingum og ég hvet strandríkin enn og aftur til að hefja tafarlaust viðræður um að leysa þessa langvinnu deilu.“

Írski ESB-þingmaðurinn þakkaði öllum þátttakendum í þríhliða viðræðum fulltrúa framkvæmdastjórnar ESB, ráðherraráðs ESB og sjávarútvegsnefndar ESB-þingsins fyrir framlag þeirra til hinnar sameiginlegu niðurstöðu. Hann sagði að samkomulagið sýndi að þingið og ráðið gætu komið sér saman um um fiskveiðistefnu sem væri jákvætt þegar hugað væri að væntanlegum viðræðum þessara aðila um breytingar á sjávarútvegsstefnu ESB.

Í samkomulaginu eru þessi efnisatriði um refsingu sem beita má ríki eða landsvæði sem stundar ósjálfbærar veiðar:

• Takmörkun á innflutningsmagni fisks til ESB þar á meðal af stofnum sem snerta sameiginlega hagsmuni og tengdar tegundir.

• Skilgreining á tengdum tegundum er almenn og nær til ýmissa tegunda annarra en makríls og er reist á FAO-reglum.

• Grípa má til viðbótaraðgerða ef upphafsaðgerðir bera ekki árangur.

• Banna má aðgang skipa með fána ríkis eða landsvæðis sem stundar ofveiði að höfnum ESB.

• Loka má ESB-höfnum fyrir skipum sem flytja fisk og fisakfurðir af tegundum sem snerta sameiginlega hagsmuni og tengdum tegundum.

• Bann við sölu á fiskiskipum, veiðarfærum og birgðum til landsins eða landsvæðisins sem talið er stunda ofveiði.

• Bann við útflöggun á fiskiskipi frá ESB-aðildarríki til lands eða landsvæðis sem talið er stunda ofveiði.

Sjávarútvegsnefnd ESB-þingsins samþykkti refsireglurnar einróma 11. júlí 2012. Eftir samþykkt nefndarinnar fer frumvarpið að nýju reglunum fyrir ESB-þingið í heild. Greiða þingmenn væntanlega atkvæði um frumvarpið í september 2012. Við svo búið verður málið endanlega afgreitt í ráðherraráðinu

Ráðherraráð ESB krefst aðgerða

Eins og hér hefur verið lýst samþykkti ráðherraráð ESB 27. júní 2012 á lokadögum Dana í forystu þess málamiðlun um tillögur að refsireglum sem beita má gegn Færeyingum og Íslendingum. Ráðherraráðið hefur því í reynd fallist á nýjar refsireglur að ósk framkvæmdastjórnar ESB. Maria Damanaki hefur tekið við mörgum áskorunum frá ráðherraráðinu um aðgerðir gegn Íslendingum og Færeyingum og reglurnar eru samdar til að auðvelda framkvæmdastjórninni að verða við slíkum óskum.

Írar og Skotar hafa verið háværastir í gagnrýni sinni á veiðar Íslendinga og Færeyinga. Skotar sitja hins vegar ekki við borð ESB-ráðherranna heldur kemur breski ráðherrann fram fyrir þeirra hönd. Ráðherraráðið er sá vettvangur þar sem stjórnmálamenn geta látið að sér kveða gagnvart framkvæmdastjórninni.

„Írska ríkisstjórnin hefur hert á baráttu sinni gegn sjávarútvegsstefnu Íslendinga og sagt að umsókn þeirra um aðild að ESB kunni að verða stöðvuð láti þeir undir höfuð leggjast að leysa ágreininginn vegna vaxandi makrílveiða þeirra,“ sagði Arthur Beesley, Evrópufréttaritari The Irish Times í Brussel, í blaðinu 20. mars 2012.

Í fréttinni sagði að aðildarríki ESB hefðu19. mars 2012 stigið skref til að beita Íslendinga viðskiptaþvingunum vegna makrílveiðanna. Simon Coveney, sjávarútvegsráðherra Írlands, hefði sagt að deilan vegna veiðanna kynni að spilla almennt fyrir því að viðræður um sjávarútvegsmál við Íslendinga hæfust.

Írska ríkisstjórnin teldi að stórauknar makrílveiðar Íslendinga og Færeyinga jafngiltu rányrkju á verðmætasta fiskistofni Íra í andstöðu við alþjóðalög.

Í frétt The Irish Times sagði að írski ráðherrann hefði ekki sagt afdráttarlaust að Írar myndu standa gegn því að sjávarútvegskaflinn yrði opnaður í aðildarviðræðunum við Íslendinga þegar ráðherrar ræddu málið í apríl. Coveney hefði hins vegar sagt að ekki væri unnt að hefja raunhæfar viðræður um sjávarútvegsmál án þess að deilan yrði leyst.

„Við viljum að þetta mál verði leyst og það er umtalsvert opið sár sem verður að loka áður en við getum hafið alvöru viðræður um sjávarútvegskaflann,“ sagði írski ráðherrann við blaðamenn í Brussel. „Ég er ekki að tala um neitunarvald eða eitthvað í þá veru en ég held að það sé mikilvægt fyrir okkur að “flagga„ þessu máli.“

Coveney sagði að sjónarmið Íra nytu stuðnings Breta, Spánverja, Portúgala, Frakka og Þjóðverja í ráðherraráði ESB. Hann áréttaði að hann styddi heilshugar aðild Íslands að ESB, Írar ættu margt sameiginlegt með Íslendingum og kynnu að eignast þar bandamann innan sambandsins.

„Vegna þessa máls er hins vegar mjög erfitt fyrir ESB að opna sjávarútvegskaflann í góðri trú þar sem óljóst er um niðurstöðu í jafnmikilvægu máli og makrílkrísunni eins og ég vil kalla deiluna,“ sagði ráðherrann. „Ég hef ekki farið fram á annað en þetta, annað en að segja að eigi að ræða um sjávarútvegsmál í góðri trú í aðildarviðræðunum við Íslendinga sé erfitt að gera það án þess að fyrir liggi samkomulag um makrílinn því að það setur svip sinn á viðræðurnar.“

Þetta var ekki í fyrsta sinn sem fréttir af þessu tagi bárust frá Írlandi. Á fundi sjávarútvegsráðherra ESB-ríkja í júní 2010 naut írski sjávarútvegsráðherrann stuðnings átta starfsbræðra sinna, þegar hann hvatti Mariu Damanaki til að beita sér gegn aðlögunarviðræðum við Ísland, ef Íslendingar féllu ekki frá einhliða ákvörðun sinni um makrílkvóta. Ritaði Damanaki kvörtunarbréf til Štefans Füle, stækkunarstjóra ESB. Írar sögðust taka málið fyrir gagnvart Íslendingum í aðlögunarferlinu.

Eftir að Íslendingar kynntu um miðjan desember 2010 veiðikvóta sinn á makríl á árinu 2011 sendi Richard Lochhead, sjávarútvegsráðherra Skota, frá sér harðorða yfirlýsingu 18. desember 2010. Hvatti hann til þess að stofnað yrði til alþjóðaaðgerða gegn Íslendingum – og Færeyingum – og sagði að fyrir lægi loforð frá Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra ESB, um að gripið yrði til viðeigandi refsiaðgerða. Hann sagði:

„Við höfum undir höndum loforð frá Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra ESB, um að gripið verði til harkalegra aðgerða gegn Íslendingum – og Færeyingum – og gerðar nauðsynlegar ráðstafanir til að unnt sé að beita árangursríkum refsiaðgerðum.

Skoskir sjómenn og aðrir innan ESB og í Noregi hafa undanfarin 10 ár stundað sjálfbærar veiðar á hinum verðmæta makrílstofni – 135 milljón punda virði (24,4 milljarðar ISK) fyrir skoskan efnahag 2009. Lífsnauðsynlegt er að bregðast við af festu annars geta ábyrgðarlausar aðgerðir Íslendinga kippt stoðunum undan þessum veiðum.“

Framkvæmdastjórn ESB sendir bréf

Maria Damanaki sagði við ráðherraráðið að hún hefði sent starfsbróður sínum í framkvæmdastjórn ESB Štefan Füle stækkunarstjóra ESB bréf. Það gerði hún að sjálfsögðu ekki nema af því að hún leit þannig á að tengsl væru milli makríldeilunnar og aðildarviðræðnanna við Ísland sem hófust formlega sumarið 2010.

Málið var rætt í framkvæmdastjórninni og hinn 7. október 2010 sendu þrír framkvæmdarstjórnarmenn ESB íslenskum ráðherrum bréf vegna makríldeilunnar, þau Maria Damanaki sjávarútvegsstjóri, Štefan Füle stækkunarstjóri og Karel de Gucht viðskiptamálastjóri. Í bréfinu segir:

Ykkur er vafalaust kunnugt um víðtækar áhyggjur innan Evrópusambandsins, vegna þess að Íslendingar hafa skyndilega hafið ákafa veiðisókn í makríl á síðustu þremur árum, og sérstaklega vegna hins mikla aflamagns, sem leyft hefur verið. Stærð þessara einhliða kvóta er augljóslega talin umfram sjálfbær mörk og þar með í ósamræmi við þörfina fyrir alþjóðlega samvinnu milli strandríkja.

Öll framkvæmdastjórn Evrópu tekur undir þessar áhyggjur, og hefur hún leitast við að halda uppi samræðum milli strandríkjanna fjögurra til þess að finna langtíma lausn á kvótaskiptingu milli allra strandríkjanna á væntanlegum fundi í London 12. til 14. október, 2010.

Við viljum minna á, að hinn 27. september áréttaði sjávarútvegsráðherraráð ESB, hve alvarlegt þetta á ástand er, en það hefur áhrif á lykil fiskauðlind fyrir sjávarútveg innan ESB. Ráðið samþykkti samhljóða að stefna bæri að langtíma samkomulagi um kvótaskiptingu milli strandríkja, sem tæki í gildi á árinu 2011. Þótt ráðið viðurkenndi, að slíkt samkomulag kæmist ekki í höfn án eftirgjafar helstu hagsmunaaðila, Noregs og ESB, taldi það einsýnt, að slík lausn yrði ekki keypt hvaða verði, sem væri. Ráðherrarnir áréttuðu einnig, að næðist ekkert samkomulag í komandi viðræðum strandríkjanna vegna óraunsærra væntinga um kvóta, áskildi ráðið sér rétt til að bregðast við á viðeigandi hátt til að verja sjálfbærni fiskstofnsins og lögmæta fiskveiðihagsmuni ESB.

Í niðurstöðum ráðherraráðsfundarins má sjá vísbendingar um, hvernig eftirgjöf sé hugsanleg af hálfu ESB, en skoða verður þær í því ljósi, að Íslendingar og Færeyingar sýni meira raunsæi og meiri ábyrgð en til þessa að því er varðar væntingar vegna skiptingar kvóta. Framkvæmdastjórnin hefur fengið skýrt umboð frá ráðherraráðinu og við einbeitum okkur nú að því að finna samningsgrundvöll milli strandríkjanna um kvótaskiptingu á árinu 2011 og næstu ár.

Við treystum því, að þið séuð sammála okkur um, að vandinn vegna makríls er þess eðlis, að hann nær út yfir hreina fiskveiðistjórnun. Takist ekki að finna skjóta lausn kann það að hafa áhrif á trúverðugleika tvíhliða samskipta okkar. Miðað við mikilvægi málsins, vildum við láta í ljós við ykkur einlæga þrá okkar eftir því að finna lausn á deilunni um kvótaskiptinguna.

Við erum sannfærð um, að þið skiljið fyllilega eðli og mikilvægi þessa máls fyrir Evrópusambandið og að þið verðið til þess búnir, eins og við, að fela sendinefnd ykkar að sýna nauðsynlegan sveigjanleika og raunsæi í komandi viðræðum til að við finnum hæfilega lausn fyrir framtíðina.

Maria Damanaki Štefan Füle Karel de Gucht

(sign) (sign) (sign)

Bréfið var sent til Jóni Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra og svöruðu þeir á þennan hátt 8. október 2010:

„Með vísan til bréfs ykkar dags. 7. október, viljum við taka fram eftirfarandi.

Íslendingar hafa í góðri trú unnið að því að finna lausn á makrílmálinu. Við höfum lýst vilja til að stuðla að samkomulagi í trausti þess, að aðrir aðilar málsins vilji gera slíkt hið sama. Íslendingar voru nýlega gestgjafar á tvíhliða fundi í Reykjavík með fulltrúum ESB til að undirbúa viðræður strandríkjanna í London 12.til 14. október, 2010. Töldu báðir aðilar fundinn mjög gagnlegan.

Það veldur okkur því vonbrigðum, að gefið er til kynna í bréfi ykkar, að Íslendingar beri meginábyrgð á þeirri staðreynd, að samanlagðir, einhliða makrílkvótar aðilanna fjögurra, fari yfir sjálfbær mörk stofnsins. Augljóst er, að strandríkin fjögur bera hér sameiginlega ábyrgð.

Við lýsum megnri andstöðu við þá fullyrðingu ykkar, að makrílmálið nái „út yfir hreina fiskveiðistjórnun“. Með því yrði í raun sett hættulegt fordæmi fyrir viðræður um fiskveiðistjórnun almennt.

Okkur er að sjálfsögðu mjög vel ljóst, hve mikilvægt þetta mál er fyrir strandríkin fjögur. Eins og við höfum þegar tekið fram munu Íslendingar gera sitt ítrasta til að ná samkomulagi. Það krefst sveigjanleika og raunsæis af hálfu allra aðila, eigi að nást hæfileg lausn.

Jón Bjarnason Össur Skarphéðinsson

(sign) (sign)“

Þessi bréfaskipti og aðild stækkunarstjóra ESB að þeim sýna enn að tengsl eru á milli makríldeilunnar og ESB-aðildarumsóknar Íslands. Væri deilan sérgreint sjávarútvegsmál hefði Maria Damanaki snúið sér beint til Jóns Bjarnasonar án þess að blanda starfsbræðrum sínum og utanríkisráðherra Íslands í málið.

Hittust fulltrúar strandríkjanna fjögurra á fundi í London 12. október 2010 og síðan að nýju 26. október 2010 og þá bar svo við, að Norðmenn lögðu til, að hlutdeild Íslands í makrílveiðum árið 2011 yrði 3,1% eða 26 þúsund tonn í stað þeirra 17% eða 130 þúsund tonna, sem heimilt var að veiða árið 2010. Evrópusambandið lýsti stuðningi við tillögu Norðmanna.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafnaði tillögunni um 3,1% aflahlutdeild með öllu. Hann sagði, að afstaða Norðmanna kæmi í sjálfu sér ekki á óvart enda hefðu þeir ekki sýnt neinn sveigjanleika í samningaviðræðunum fram að þessu. Afstaða Evrópusambandsins vekti hins vegar furðu sína þar sem óformlegar viðræður hefðu farið fram milli Íslands og ESB um miklu hærri hlutdeild Íslands. Íslendingar hefðu tekið þátt í þessum viðræðum í góðri trú en svo virtist sem það hefði ekki verið gagnkvæmt.

Framkvæmdastjórn ESB hótar

Maria Damanaki hafði ekki legið á liði sínu sunarið 2010 í aðdraganda þess að framkvæmdastjórarnir þrír sendu íslensku ráðherrunum bréf sitt.

Hinn 9. ágúst 2010 gerði Damanaki harða hríð að Færeyingum vegna kvótaákvörðunar þeirra. Sjávarútvegsstjórinn sagði, að vegna einhliða kvótaákvarðana Færeyinga og Íslendinga ykist hætta á því, að Norðaustur-Atlantshafs makrílstofninn hryndi. Damanaki gaf til kynna, að Evrópusambandið mundi senda Færeyingum mjög skýr skilaboð næstu daga og mundi auk þess óska eftir fundi sem fyrst milli aðila í því skyni að koma stjórn á Norðaustur-Atlantshafs makrílstofninum að nýju í sjálfbært horf. Færi á hinn bóginn svo, að stjórnleysið, sem nú ríkti við markílveiðar, héldi áfram og enn yrði haldið fast við óskynsamlega afstöðu aðila, mundi framkvæmdastjórnin huga að öllum nauðsynlegum leiðum til að vernda makrílstofninn og gæta ESB-hagsmuna.

Þarna dró Damanaki skil á milli Færeyinga og Íslendinga. Framkvæmdastjórn ESB taldi sig geta nálgast Íslendinga á annan hátt vegna aðildarumsóknarinnar. Í viðræðum um hana mætti setja íslenskum stjórnvöldum stólinn fyrir dyrnar.

Hinn 30. september 2010 sendi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið frá sér tilkynningu þar sem það svaraði harðri gagnrýni Damanaki á makrílveiðarnar sem hún lýsti á blaðamannafundi í Brussel 27. september 2010. Sagði ráðuneytið að sjávarútvegsstjóri ESB hefði hótað því „að ESB kynni að grípa til aðgerða gagnvart Íslandi og Færeyjum og m.a. taka árlega fiskveiðisamninga sambandsins við löndin tvö til endurskoðunar“. Um þetta sagði ráðuneytið: „Ljóst er að hótanir um aðgerðir á borð við uppsögn óskyldra samninga er ekki eðlileg leið í samningum á milli sjálfstæðra ríkja og áðurnefndar hótanir ESB eru ekki til þess fallnar að stuðla að lausn málsins.“

Maria Damanaki lét ekki við það eitt sitja að hóta uppsögn fiskveiðisamninga. Um miðjan desember 2010 bárust fréttir um að hún hefði skýrt sjávarútvegsráðherrum ESB-ríkjanna á fundi í Brussel 13. og 14. desember 2010 frá því að hún hefði innan framkvæmdastjórnar ESB rætt leiðir til að takmarka landanir Íslendinga á makríl í ESB-höfnum. Þá hefði hún einnig lagt á ráðin um nýjar reglur sem gætu leitt til banns á innflutningi á fiski frá sérhverju ríki sem færi ekki að alþjóðareglum og ætti það meðal annars við um Færeyinga.

Hinn 21. desember 2010 sendi Damanaki frá sér tilkynningu um að framkvæmdastjórn ESB hefði ákveðið að löndun makríls af Íslandsmiðum í evrópskum höfnum væri óheimil frá og með 14. janúar 2011. Hafði Bloom¬berg-fréttastofan eftir Damanaki að þetta skref þyldi enga bið. Markmið bannsins væi að „senda skýr skilaboð til Íslands“.

Stefán Haukur Jóhannesson, þáverandi sendiherra gagnvart ESB í Brussel og formaður ESB-viðræðunefndar Íslands, hitti Damanaki á fundi í Brussel 22. desember. Að sögn Stefáns Hauks gekk hann á fundinn til að kynna Damanaki sjónarmið Íslands í makrílmálinu og ákvarðanir um 147.000 tonna íslenskan makrílkvóta á árinu 2011. Í frétt ruv.is um fundinn sagði meðal annars 22. desember 2010:

„Stefán segir fundinn hafa verið afar jákvæðan og framkvæmdastjórinn ætli að beita sér fyrir lausn deilunnar. Hann segist telja að þetta gefi skýra vísbendingu um að Evrópusambandið sé fyrir sitt leyti tilbúið að skoða breyttar kringumstæður sem Íslendingar hafi mjög haldið á lofti, þ.e.a.s. að göngumynstur makríls hafi breyst verulega. Þá skipti miklu máli hversu mjög makríllinn í íslensku lögsögunni sé þyngri en sá sem hafi verið þar áður. Ekki sé hægt að horfa framhjá því í þeirri stöðu sem nú sé uppi og það verði að taka tillit til þessara sjónarmiða í framhaldi þessara viðræðna.

Stefán segir of snemmt fyrir Íslendinga að fagna sigri í deilunni, ekki hafi verið um eiginlegar samningaviðræður að ræða. Honum hafi hins vegar þótt Damanaki hlusta vel á rök Íslanda og ekki gert ágreining úr þeim sjónarmiðum sem hann hafi sett fram. Stefán segir að í framhaldinu voni hann að Evrópusambandið sé tilbúið til þess að sýna meiri sveigjanleika en ekki beri að fagna of snemma.“

Ég fjallaði um þessa frásögn af fundi sendiherrans með Damanaki í leiðara á Evrópuvaktinni 23. desember 2010 og sagði:

„Við mat á orðum sendiherrans má velta fyrir sér þremur kostum: hvort Stefán Haukur hafi hitt sömu Damanaki og þá sem hrópar á fundum ESB-sjávarútvegsráðherra að hún ætli að láta kné fylgja kviði gagnvart Íslendingum; Damanaki tali tungum tveim; Stefán Haukur hafi ekki skilið ummæli sjávarútvegsstjórans. Enginn þessara þriggja kosta skýrir bjartsýni sendiherrans heldur hitt að hann er undir sömu ESB-stjörnu og Össur [Skarphéðinsson]. Þeir skýra öll mál ESB í vil. Þeir mega ekki til þess hugsa að embættismenn í Brussel hafi ekki skilning á því sem fulltrúar íslensku ESB-deildarinnar segja við þá. Þeir eru með öðrum orðum komnir undir áhrifavald framkvæmdastjórnar ESB og vilja ekki styggja fulltrúa hennar.

Alex Singleton, leiðarahöfundur hjá The Daily Telegraph, skrifaði 22. desember um makríldeiluna á vefsíðu blaðsins. Hann skammar breska sjávarútvegsráðherrann fyrir að klaga Íslendinga fyrir Mariu Damanaki, honum sé nær að líta í eigin barm. Sameiginleg fiskveiðistefna ESB sé að gera út af við breskan sjávarútveg en ekki Íslendingar sem kjósi eðlilega að veiða makríl þegar hann syndi inn í lögsögu þeirra. Vilji breski ráðherrann bjarga umbjóðendum sínum eigi hann að losa þjóð sína undan oki fiskveiðistefnu ESB sem jafnist á við hörmulegt umhverfisslys en ekki ráðast á Íslendinga.

Dapurlegast við framgöngu Össurar og ESB-deildar utanríkisráðuneytisins er, að fyrir þessum fulltrúum Íslands vakir það eitt að koma Íslendingum í sömu stöðu í fiskveiðimálum og hefur eyðilagt sjávarútveg Breta. Einmitt þess vegna skýra þeir málstað ESB og hótanir á þann milda hátt sem dæmin sýna. Málstaður Íslendinga á annað og betra skilið.“

Þegar Maria Damanaki hitti sendiherra Íslands rétt fyrir jól 2010 hélt hún sig ráða yfir vopni sem dygði til að brjóta Íslendinga á bak aftur. Ráða má af frásögn Stefáns Hauks að hún hafi sýnt honum kurteisi en að hún hafi ekki vakið máls á ráðagerðum sínum um refisaðgerðir er með miklum ólíkindum. Þegar á reyndi kom í ljós að vopnin í búri Damanaki voru næsta bitlaus. Hún lét þó ekki deigan síga heldur fól starfsmönnum sínum að smíða ný, reglurnar sem nú hafa verið samþykktar.

Hinn 10. maí 2012 birtist viðtal við Mariu Damanaki á vefsíðunni The Grocer þar sem meðal annars er rætt við hana um makrílveiðarnar og tilraunir hennar til að brjóta Íslendinga og Fæeryinga á bak aftur. Þar viðurkennir Damanaki að henni hafi hreinlega mistekist áformin sem hún kynnti undir árslok 2010, hana hafi skort nægilega þung vopn til að beita gegn Íslendingum og Færeyingum. Endursögn þessa samtals birtist á Evrópuvaktinni 12. maí 2012. Þar segir meðal annars:

„Damanaki viðurkennir að á síðsta ári [2011] hefðu hugmyndir um viðskiptabann misst marks. “Hvernig á ég að orða það? Þær hefðu ekki verið nógu sársaukafullar,„ segir hún. Hún er hins vegar staðráðin í því að standa þannig að málum að ekkert tapist við töfina, tillögurnar sem nú eru til umræðu séu mun víðtækari en málið snerist um á síðasta ári að hennar sögn. Framkvæmdastjórn ESB hefur lagt þessar tillögur fyrir ESB-þingið og ráðherraráð ESB með ósk um að fá vald til að beita viðskiptabanni gegn fiskafurðum frá Færeyjum og Íslandi.

„Einhliða ákvarðanir einstakra ríkja sem vilja ekki vinna í góðri trú að sameiginlegum aðgerðum kunna að leiða til eyðingar á viðkomandi fiskstofni jafnvel þótt önnur ríki minnki veiðar sínar,“ segir í tillögunni. „Þess vegna er óhjákvæmilegt að ESB fái heimild til að grípa til virkra aðgerða gegn hverju ríki sem vinnur ekki með öðrum í góðri trú að framkvæmd umsaminna aðgerða við stjórn fiskveiða eða ber ábyrgð á aðgerðum og aðferðum sem leiða til ofnýtingar stofna, svo að sambandið geti reist skorður við því að þessar ósjálfbæru veiðar séu stundaðar áfram.“

Umfang bannsins er enn óljóst en það gæti náð til fiskafurða frá íslenskum og færeyskum skipum, til takmörkunar á þjónustu við þessi skip í ESB-höfnum og að hvorug þjóðanna megi nota ESB-skip eða tækjabúnað til að veiða makríl.

Hvað um þessa þriðju leið? Mundi hún alvarlega íhuga að grípa til stríðsaðgerða til að vernda makrílstofna ESB? Damanaki hlær og skautar af fimi diplómatans fram hjá þessari spurningu en þegar litið til þess af hve miklum þunga hún hefur barist gegn brottkasti er eitt öruggt – þessi kona gefur sig ekki fyrr en í fulla hnefana. Gætið ykkar Íslendingar, Færeyingar og brottkastarar hvar sem þið eruð, segir Richard Ford í lok greinarinnar í The Grocer.“

Þessi frásögn í The Grocer lýsir vel huga Damanaki þegar þegar hún talar til þeirra sem sitja í ráðherraráði ESB og á ESB-þinginu. Hún réð ekki yfir nægilega þungum vopnum þess vegna hefur hún ekki getað valdið Íslendingum þeim sársauka sem hún ætlaði í ársbyrjun 2011 eftir að sendiherra Íslands taldi hana sína makrílmálstað Íslendinga mikinn skilning.

Af frásögnum af því sem Maria Damanaki sagði í Reykjavík í byrjun júlí 2012 verður ekki séð að neinn hafi vakið máls á ummælum hennar í The Grocer. Baldur Arnarson, blaðamaður á Morgunblaðinu, ræddi við Damanaki í Reykjavík og birtist þessi frétt í blaðinu 4. júlí 2012:

„Ég tel að við þurfum að ljúka samningaviðræðum þannig að samningar liggi fyrir áður en næsta fiskveiðitímabil hefst. Það er markmið okkar. Það þýðir að við þurfum að ná samkomulagi í haust,“ segir Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri ESB, um þau tímamörk sem sambandið gefur til að finna lausn á makríldeilunni.

Damanaki ítrekar í samtali við Morgunblaðið að hún vilji fara samningaleiðina en tekur jafnframt fram að fyrirhuguðum refsiákvæðum gegn ríkjum sem stunda ofveiði verði beitt sé talin ástæða til.

Hvað snertir það sjónarmið að [refsi]ákvæðin brjóti í bága við EES-samninginn og ákvæði samninga á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar telur Damanaki lagarökin með ESB.

„Lögmenn okkar hafa séð um málið og þeir geta sagt þér að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur upp á að bjóða bestu lagalegu ráðgjöfina sem fyrirfinnst. Úrræðin verða í samræmi við alþjóðalög. Ég er ekki lögfræðingur en ég treysti lögmönnum okkar. Þeir eru afar færir,“ segir Damanaki sem telur að Ísland verði sem umsóknarríki að ESB að virða heildarlöggjöf sambandsins, líkt og aðrir nýliðar sem sækja um inngöngu. Á hún með því við að Ísland verði að fara samningaleiðina við ESB í deilunni, ella gangi landið gegn þessari hefð.„

Á fundinum í Reykjavík ákváðu sjávarútvegsráðherrar Íslands og Noregs auk Damanaki að efnt yrði til fundar um makrílmálið í London í september. Fundurinn yrði á „pólitísku stigi“, hvað sem það þýðir. Um sama leyti mun Damanaki hafa fengið þau vopn í hendur sem hún telur sig hafa skort. Hún verður að beita þeim náist ekki samkomulag annars tapar hún andlitinu endanlega gagnvart ESB-þinginu og ráðherraráðinu. Makríllin gæti orðið hennar banabiti.

Niðurlag

Hér verður látið staðar numið. Af þessari samantekt er augljóst að fráleitt er að skilja á milli makríldeilunnar og ESB-aðildarumsóknar Íslands. Sé það gert er tilgangurinn einn: að blekkja einhverja á Íslandi. Innan ESB er öllum ljóst að þarna eru tengsl á milli. Þegar Štefan Füle slær úr og í vegna málsins er hann aðeins á slá ryki í augu íslenskra viðmælenda sinna. Hann gengur á lagið því oftar sem íslenskir ráðherrar og embættismenn láta sem þeir átti sig ekki á hinum skýru tengslum.

Í Brussel hafa þeir menn nokkuð til síns máls sem segja að á þessu stigi aðildarviðræðna við Íslendinga tapi Evrópusambandið engu á því að sýna á sér milda hlið í makríldeilunni. Því fyrr sem takist að lokka Íslendinga inn í ESB þeim mun fyrr fái Evrópusambandið það vald yfir makrílstofninum sem það kýs. Ísland yrði í sömu skúffu og Írland og Bretland (Skotland), ESB kæmi fram sem strandríki og tæki ákvörðun um veiðar innar lögsögu sinnar. Þar yrði byggt á reglunni um hlutfallslegan stöðugleika sem íslenskir ESB-aðildarsinnar telja til fyrirmyndar og afli Íslendinga skorinn við trog, niður í 3,1 til 7%.

Pólitískt forræði makrílmálsins er hjá Steingrími J. Sigfússyni, formanni vinstri-grænna. Lifi hann og VG í þeirri trú að unnt sé að semja við ESB um að íslensk stjórnvöld hafi fullan samningsrétt yfir flökkustofnum eins og makríl ef til aðildar kæmi ætti vaxandi harka ESB í makrílmálinu að sýna þeim sem því trúa að þar lifa þeir í blekkingu. Þeir embættismenn sem sömdu álit meirihluta utanríkismálanefndar alþingis og skyldu eftir svigrúm varðandi þennan rétt vissu að ESB mun aldrei gefa eftir strandríkisréttinn. Orðalagið sannar máttleysi þessa texta þegar á reynir. Landsfundur VG áttaði sig á því og setti strangara skilyrði. Til hvers er hins vegar að hafa þennan rétt ef menn lyppast niður þegar á hann reynir? Steingrímur J. og Árni Þór, fulltrúar VG, tala nú orðið á þann veg að þeim sé nauðugur einn kostur að semja við ESB.

Makrílveiðin undanfarin fimm ár hefur skýrt í huga Íslendinga hvílík verðmæti eru í húfi og hve brýnt er að afsala þjóðinni ekki rétti yfir makrílnum. Hafa þeir sem vilja fórna ráðum yfir makríl til að komast inn í ESB misst af tækifærinu? Sé svo verður sjávarútvegskaflinn í ESB-viðræðunum ekki opnaður – að minnsta kosti ekki á meðan makríllinn heldur áfram að synda inn í lögsögu Íslands.