28.7.2012 23:05

Laugardagur 28. 07. 12

Nú hefur verið upplýst að fimm þingmenn VG styðji ekki landabraskið í sambandi við Huang Nubo. Þá segist Þór Saari, málsvari Hreyfingarinnar, ekki styðja braskið. Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, talar eins og hann kunni að styðja málstað vina Huangs. Magnús Orri Schram, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, segir flokkinn ætla að taka málefnalega afstöðu (!).

Spurning hvað þetta þýði allt saman? Ákvörðun um viðskipti við Huang Nubo er ekki á valdi alþingis heldur framkvæmdavaldsins. Ætla þingmennirnir að lýsa vantrausti á ráðherra sem beitir sér fyrir jákvæðri afgreiðslu að máli Huangs?

Þegar fréttir bárust af áhuga Huangs á að kaupa Grímsstaði á Fjöllum bar samfylkingarfólk hann á höndum sér. Össur Skarphéðinsson gaf sendiherra Íslands í Peking fyrirmæli um að sitja blaðamannafund með Huang og fagna Íslandsáhuga hans. Eftir að Ögmundur Jónasson hafnaði ósk Huangs sagði Katrín Júlíusdóttir að hún mundi sem iðnaðarráðherra sjá til þess að unnt yrði að koma til móts við óskir Huangs,

Samfylkingin tók Huang upp á arma sína eftir að hann hafði fundið stað á Íslandi meðal annars með aðstoð Ragnars Baldurssonar, starfsmanns sendiráðs Íslands í Peking.

Hvað gerir Samfylkingin í stöðunni núna? Magnús Orri segir hana ætla að taka málefnalega afstöðu. Hefur hún ekki gert það til þessa? Í pólitísku skjóli hennar hefur mál Huangs þróast á þann veg sem við blasir. Hvað gerir Jóhanna Sigurðardóttir við Ögmund á ríkisstjórnarfundi þriðjudaginn 31. júlí?