4.7.2012 21:54

Miðvikudagur 04. 07. 12

Í dag ræddi ég við Guðna Th. Jóhannesson sagnfræðing í þætti mínum á ÍNN. Samtalið snerist um forsetaembættið og þróun þess í ljósi kosninganna. Við vorum sammála um að hér þyrfti að gera hið sama og Finnar gerðu eftir langan feril Kekkonens. Hann færði sig meira upp á skaftið sem Finnlandsforseti eftir því sem hann sat lengur. Eftir hans dag settu Finnar þröng og skýr stjórnarskrárákvæði um valdsvið forsetans. Starfssvið forseta Íslands á ekki að ráðast af geðþótta þess sem gegnir embættinu þótt hann setji óhjákvæmilega svip sinn á hvernig að verki er staðið.

Ólafur Ragnar færði sér fljótt í nyt að utanríkisráðherrar settu honum ekki skorður sem forseta. Hann telur sig hafa nægilegt svigrúm og hafa náð sínu fram í utanríkismálum. Nú gerir hann atlögu að embætti forsætisráðherra og leitast við að færa vald hans í eigin hendur. Jóhanna Sigurðardóttir stenst honum ekki snúning. Hvernig þrengir hann að embætti forsætisráðherra á síðasta kjörtímabili sínu?

Þáttinn með Guðna Th. má sjá klukkan 22.00 í kvöld og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun, fimmtudag.