15.7.2012 22:05

Sunnudagur 15. 07. 12

Á ruv.is má lesa í dag:

„Nýverið fundu starfsmenn Eimskips bækistöðvar flóttamanna sem reyna að komast um borð í skip, þeir fundu mann undir hlera á hafnarsvæðinu sem var með talstöð og stjórnaði aðgerðum á meðan aðrir fjórir reyndu að komast um borð. Ólafur [William Hand upplýsingafulltrúi hjá Eimskip] segir að þetta hafi líkst hernaðaraðgerð.  „Við höfum sjö sinnum þurft að stöðva menn inni á svæðinu frá því apríl eða maí, samtals sautján einstaklinga.“


Ólafur telur að sumir af þessum mönnum hafi reynt að smygla sér um borð í tvö til þrjú ár. „Við höfum jafnvel fundið ummerki um að menn hafi beðið færis í tvo til þrjá daga inni á hafnarsvæðinu.““

Hið furðulega við þetta mál er að þeir sem hér eru að verki neita að upplýsa íslensk yfirvöld um hverjir þeir eru í raun og veru, eyðileggja vegabréf sín áður en þeir koma til landsins, segja rangt til um aldur og beita öðrum blekkingum um leið og þeir biðja um hæli sem pólitískir flóttamenn. Vegna þess hve illa gengur að sannreyna orð þeirra dveljast þeir lengur en góðu hófi gegnir í búðum fyrir hælisleitendur. Það vinna þeir greinilega að því að skipuleggja för til annars lands. Ásetningur þeirra hefur heldur aldrei verið að setjast að hér á landi.

Um er að ræða tilraunir til að misnota útlendingalöggjöfina og reglur um hælisleitendur til að fá nýtt vegabréf í þeim tilgangi einum að komast eitthvert annað. Í anda stefnu vinstri-grænna hefur verið látið eins og of harkalega hafi verið tekið á málum hælisleitenda áður en vinstri-grænir tóku við stjórn útlendingamála. Yfirlýsingar í þá veru hafa aðeins orðið til þess að fjölga þeim sem koma hingað til lands og misnota reglur sem settar eru til að koma til móts við fólk í raunverulegri neyð.

Innanríkisráðuneytið vinnur annars vegar að því undir stjórn Ögmundar Jónassonar að framfylgja stefnu hans um að taka á móti fleiri hælisleitendum og hins vegar að því að auka öryggisreglur til að sporna við afbrotum þeirra. Á visir.is mátti lesa í dag:

„Jóhannes Tómasson upplýsingafulltrúi innanríkisráðuneytisins sagði í samtali við fréttastofu að verið sé að fara yfir flug- og siglingaverndarmál vegna þessara atvika [lögbrota hælisleitenda vegna tilrauna til að komast úr landi] . Fundað verði með viðeigandi aðilum sem fyrst meðal annars í kjölfar þess þegar Flugmálastjórn skilar skýrslu um atvikið á Keflavíkurflugvelli.“

Hvernig væri að byrja á réttum enda á þessu máli? Leggja áherslu á að bægja hælisleitendum frá landinu?