12.9.2010

Botninn í stjórnmálaumræðu - er honum náð?

Þegar rætt er um efnahagsmál, segja stjórnmálamenn að botninum náð. Gott ef þau Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon tóku sér ekki þennan frasa í munn á dögunum. Steingrímur J. ritaði að minnsta kosti greinaflokk um, að landið væri tekið að rísa að nýju.

Skömmu eftir að birtingu greinaflokksins, hinn 3. september sl., sendi Hagstofa Íslands frá sér tilkynningu um, að landsframleiðsla væri talin hafa dregist saman um 3,1% að raungildi frá 1. ársfjórðungi 2010 til 2. ársfjórðungs 2010. Á sama tíma drógust þjóðarútgjöld saman um 7,4%. Einkaneysla dróst saman um 3,2% og fjárfesting dróst saman um 4,7%. Samneysla jókst um 1,0%. Á sama tímabili jókst útflutningur um 2,8% en innflutningur dróst saman um 5,1%.

Landið var sem sagt ekki tekið að rísa á þann hátt, sem Steingrímur J. lýsti. Botninum var ekki náð. Ríkisstjórnin þvælist enn fyrir, að efnahags- og atvinnulíf komist á skrið. Allt, sem  nefnt er í nafni nýsköpunar, verður að ágreiningsefni innan ríkisstjórnarinnar. Stöðnun og ráðaleysi einkennir stjórnarhætti.

Óvild í garð Sjálfstæðisflokksins er límið í stjórnarsamstarfinu. Sjálfsstyrking stjórnarliða felst í því að endurtaka reiðilestur um sjálfstæðismenn.  Er botninum náð, eftir að meirihluti nefndar undir formennsku Atla Gíslasonar hefur ákveðið að stefna Geir H, Haarde, Árna M. Mathiesen , Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Björgvin G. Sigurðssyni fyrir landsdóm?  Að tillögunni standa: Atli Gíslason, Lilja Rafney Magnúsdóttir, vinstri-grænum,  Sigurður Ingi Jóhannsson, Eygló Harðardóttir,  Framsóknarflokki, og  Birgitta Jónsdóttir, Hreyfingunni.

Að framsóknarmenn standi að þessari tillögu endurspeglar viðleitni flokksins til að þoka sér til vinstri í von um, að hann verði gjaldgengur í stjórn með vinstri flokkunum. Sjálfstæðismenn hljóta að líta fram hjá bæði vinstri-grænum og Framsóknarflokknum við allar stórpólitískar ákvarðanir, eftir að flokkarnir sýna þessa pólitísku hlið á sér. Varla er unnt að sökkva lægra í stjórnmálastarfi en saka andstæðinga sína um refsivert brot og heimta, að þeir verði dæmdir til fangelsisvistar vegna ágreinings um vandmeðfarin álitamál við stjórn landsins.

Í ákæruatriðum þingamannanna fimm á hendur Geir H. Haarde segir meðal annars, að hann hafi „sýnt af sér alvarlega vanrækslu á starfsskyldum sínum sem forsætisráðherra andspænis stórfelldri hættu sem vofði yfir íslenskum fjármálastofnunum og ríkissjóði, hættu sem honum var eða mátti vera kunnugt um og hefði getað brugðist við með því að beita sér fyrir aðgerðum, löggjöf, útgáfu almennra stjórnvaldsfyrirmæla eða töku stjórnvaldsákvarðana á grundvelli gildandi laga í því skyni að afstýra fyrirsjáanlegri hættu fyrir heill ríkisins.“

Geir hafi „látið undir höfuð leggjast að hafa frumkvæði að því, annaðhvort með eigin aðgerðum eða tillögum um þær til annarra ráðherra, að innan stjórnkerfisins væri unnin heildstæð og fagleg greining á fjárhagslegri áhættu sem ríkið stóð frammi fyrir vegna hættu á fjármálaáfalli.“

Geir hafi „vanrækt að hafa frumkvæði að virkum aðgerðum af hálfu ríkisvaldsins til að draga úr stærð íslenska bankakerfisins með því til að mynda að stuðla að því að bankarnir minnkuðu efnahagsreikning sinn eða einhverjir þeirra flyttu höfuðstöðvar sínar úr landi.“

Geir hafi „ekki fylgt því eftir og fullvissað sig um að unnið væri með virkum hætti að flutningi Icesave-reikninga Landsbankans í Bretlandi yfir í dótturfélag og síðan leitað leiða til að stuðla að framgangi þessa með virkri aðkomu ríkisvaldsins.“

Geir hafi „vanrækt að gæta þess að störf og áherslur samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað, sem stofnað var til á árinu 2006, væru markvissar og skiluðu tilætluðum árangri.

Geir hafi „látið farast fyrir að framkvæma það sem fyrirskipað er í 17. gr. stjórnarskrár lýðveldisins um skyldu til að halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni. Á þessu tímabili var lítið fjallað á ráðherrafundum um hinn yfirvofandi háska, ekki var fjallað formlega um hann á ráðherrafundum og ekkert skráð um þau efni á fundunum. Var þó sérstök ástæða til þess, einkum eftir fund hans, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, Árna M. Mathiesen og formanns stjórnar Seðlabankans 7. febrúar 2008, eftir fund hans og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur með bankastjórn Seðlabankans 1. apríl 2008 og í kjölfar yfirlýsingar til sænsku, dönsku og norsku seðlabankanna sem undirrituð var 15. maí 2008. Forsætisráðherra átti ekki frumkvæði að formlegum ráðherrafundi um ástandið né heldur gaf hann ríkisstjórninni sérstaka skýrslu um vanda bankanna eða hugsanleg áhrif hans á íslenska ríkið.“

 

Er óskiljanlegt, að þingmenn skuli telja að dæma eigi forsætisráðherra til refsingar fyrir þau atriði, sem tíunduð eru hér að ofan. Furðulegast er þó, að meirihluti  þingmanna í nefndinni skuli hafa komist að þessari niðurstöðu, án þess að hafa gefið Geir kost á að skýra mál sitt á annan hátt fyrir þingmönnunum en með bréfi, sem var svar við almennt orðuðu bréfi frá þeim.

Tæki einhver sér fyrir hendur að semja ákæruskjal af þessum toga á hendur Jóhönnu Sigurðardóttur vegna þess, hvernig hún hefur haldið á málum, frá því að hún varð forsætisráðherra 1. febrúar, 2009, yrði það ekki mikið vandaverk. Þar yrði þó hægt að benda á brot af ásetningi eins og að knýja Icesave-samningana í gegnum alþingi. Þá mætti einnig benda á vísvitandi blekkingariðju gagnvart alþingi varðandi laun seðlabankastjóra. Ótvíræða rangfærslu eins og að halda því fram, að rannsóknarnefnd alþingis hafi lagt til, að ráðuneytum skyldi fækka eða þau stækkuð. Rangt pólitískt mat á stöðu efnahagsmála í september 2010 með því að halda fram, að botninum sé náð.

Því er hent á loft á Pressunni, að Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra á vegum Samfylkingarinnar, frá vori 2007 til 1. febrúar 2009, sé ekki sátt við stöðu sína við ráðherraborðið undir forsæti Geirs H. Haarde. Ráðuneyti hennar, umhverfisráðuneytið hafi „rekið lestina“ í því, sem hún nefnir „goggunarröð ráðuneyta“.

Ráðuneytum er gert jafnt undir höfði. Orð ráðherra vega á hinn bóginn misjafnlega þungt. Þá Ráðherrum er raðað eftir reglu við fundarborðið. Utanríkisráðherra og fjármálaráðherra við borðsenda við hlið forsætisráðherra en öðrum, öðrum er skipað til sætis eftir starfsaldri sem ráðherra.

Að breyta ríkisstjórn í fjölskipað stjórnvald eins og Þórunn nefnir er ekki skynsamlegt. Hver ráðherra á að bera skýra ábyrgð á ákveðnum, vel skilgreindum málaflokki. Honum ber sjálfum að meta, hvaða mál hann leggur fram á ríkisstjórnarfundi. Sé hann í vafa á hann að bera undir forsætisráðherra, hvort mál eigi heima á dagskrá ríkisstjórnar eða ekki. Ráðherra tilkynnir forsætisráðherra fyrir ríkisstjórnarfund, hvaða mál hann vill, að þar sé rætt og er það sett á prentaða dagskrá.

Sú aðferð að hafa sérstakan ríkisfjármálahóp innan ríkisstjórnar auðveldaði pólitíska niðurstöðu um ramma fjárlaga og ramma einstakra ráðuneyta. Gegnsæi í þessu er nauðsynlegt innan ríkisstjórnar og hálfu fjármálaráðuneytis gagnvart einstökum ráðuneytum. Að lokum ber þó einn ráðherra, fjármálaráðherra, ábyrgð á fjárlagafrumvarpi.

Þórunn segir, að sér hafi stundum fundist, að ráðherrar í ríkisstjórn Íslands væru „eins og 12 trillukarlar“ sem hittust í kaffi tvisvar í viku, bæru saman aflabrögð og horfur, stæðu saman gegn utankomandi áreiti eða ógnunum en væru jafnframt í samkeppni innbyrðis um aflann. Það fyrirkomulag kynnti að henta ef gæftir væru góðar og lítil misklíð í hópnum. Reynsla haustsins 2008 hlyti að kenna okkur að slíkt fyrirkomulag stæðist ekki gjörningaveður og gæti leitt af sér úrræðaleysi og kerfislömun með hörmulegum afleiðingum fyrir land og lýð.

Þetta er skrýtin líking. Hún á ekkert skylt við veruleikann, þótt hún veki athygli fyrir stílbragð. Engin þörf er á slíkum æfingum frekar en ákærunum frá nefndarmönnum Atla Gíslasonar. Hvort tveggja ætti að sýna, að botninum sé náð í umræðum um stjórnarhætti og hrunið.