Miðvikudagur, 22. 09. 10.
Ég skrifaði pistil á dögunum um vinstri villu við túlkun á stjórnarskránni. Atli Gíslason misnotar ákvæði um landsdóm til að ná sér niðri á pólitískum andstæðingum. Hann hefur fengið nytsama sakleysingja í lið með sér. Samfylkingarfólkið er að vísu orðið hikandi. Framsóknarmenn láta stjórnast af pólitískri óvild. Sigmundur Davíð, flokksformaður, hefur að vísu ekki flutt neina bitastæða ræðu um málil á þingi. Undir hans forystu minnir þingflokkur framsóknarmanna því miður á höfuðlausan her.
Atli Gíslason hélt skammarlega illa á málum í nefnd sinni. Eftir 54 fundi liggur fyrir álit um aðgerðir, sem snerta ekki bankahrunið á neinn hátt, og eru endurtekning á ýmsu, sem fram kom í skýrslu rannsóknarnefndar alþingis. Kynjagreiningarkafli álitsins er furðusmíð í anda þess feminisma, sem einkennt hefur margt af því, sem Atli hefur haft fram að færa á þingi til að friða feminískan arm vinstri-grænna.
Atli lætur eins og bréf, sem hann skrifaði ráðherrum jafngildi því, að þeir hefðu fengið tækifæri til að skýra mál sitt fyrir nefndinni á þann hátt, sem verið hefði, ef hann hefði kallað menn fyrir hana til að svara spurningum. Hafi nefnd þingmanna einhvern tíma átt að starfa fyrir opnum tjöldum er það þessi nefnd Atla Gíslasonar. Hann hafði hins vegar ekki þrek til að standa þannig að störfum nefndarinnar.