11.9.2010

Laugardagur, 11. 09.10

Klaus Naumann, fyrrverandi yfirhershöfðingi Þýskalands og formaður hermálanefndar NATO, kom hingað til lands í morgun. Tók ég á móti honum og konu hans á Keflavíkurflugvelli og ókum við austur að Eyjafjallajökli. Það birti eftir því sem austar dró og sást verulegur hluti jökulsins, þó ekki toppurinn. Naumann flytur fyrirlestur í Norræna húsinu klukkan 12.00 mánudaginn 13. september um framtíð NATO. Hann er einstaklega vel að sér um alla þætti öryggismála og stjórnmála.

Þingmannanefnd Atla Gíslasonar um hrunskýrsluna skilaði skýrslu sinni og tillögum í dag. Nú hef ég ekki lesið skýrsluna heldur aðeins heyrt fréttir. Vinstri-grænir, framsóknarmenn og Hreyfingin ætla að reyna að slá pólitískar keilur með ákæruskjali á hendur fjórum ráðherrum í ríkisstjórn Geirs H. Haarde. Að saka þetta fólk um að haf framið refsiverðan verknað er út í hött.

Þegar dæmt hafði verið í Baugsmálinu 5. júní 2008, þar sem þrír voru sakfelldir, sagðist Atli Gíslason, alþingismaður, hafa orðið fyrir vonbrigðum vegna dómsins. Réttarvörslukerfið hefði verið á villigötum í málinu. Upphafið hefði verið pólitískt og persónulegt og eftirleikurinn eftir því. Hann væri ósáttur við niðurstöðuna í málinu – menn uppskæru eins og þeir sáðu. Málið væri aðför frá upphafi til enda. Þetta væri áfall fyrir réttarvörslukerfið.

Ég tel, að þessi orð Atla um Baugsmálið eigi við um málatilbúnað hans sjálfs, þegar hann beitir sér fyrir því, að fjórir ráðherrar skuli dregnir sem sakborningar fyrir landsdóm vegna bankahrunsins. Markmið Atla og vinstri-grænna hefur frá upphafi verið að skella allri skuld, sem þeir mega, vegna bankahrunsins á Sjálfstæðisflokkinn. Að Framsóknarflokkurinn spili með þeim sýnir enn og aftur hentistefnu flokksins. Afstaða Samfylkingarinnar að ákæra þrjá í stað fjögurra sýnir pólitískt eðli málsins í hnotskurn. Afstaða Sjálfstæðisflokksins  gegn ákæru er skýrð með málefnalegum rökum.

Að mínu áliti hefur enginn stjórnmálamaður gert meiri aðför að opinberri stjórnsýslu og stjórnarráðinu í seinni tíð en Jóhanna Sigurðardóttir. Að telja hana dómbæra um, hvað best sé til þess fallið að bæta stjórnsýsluna er ekki aðeins grín heldur lýsir ótrúlegri vanþekkingu þeirra fjölmiðlamanna, sem ræða við Jóhönnu og láta eins og hún hafi lög að mæla um endurbætur á stjórnarháttum í landinu.