2.9.2010

Fimmtudagur, 02. 09. 10.

Fjórir ráðherrar létu af störfum í dag og tveir nýir komu í þeirra stað. Þessi breyting á ríkisstjórninni skiptir engu efnislega. Ástæða er til að efast um, að hún styrki innviði stjórnarsamstarfsins.

Jóhönnu Sigurðardóttur hefur ekki þótt mikið til Kristjáns L. Möllers koma. Hún hefur nú losað sig við hann. Þar með missir Össur Skarphéðinsson helsta samherja sinn innan ríkisstjórnarinnar. Í 20 áhersluatriðum um stefnu við ráðherrabreytingarnar er ekki minnst einu orði á hjartans mál Össurar, ESB-aðildina.

Guðbjartur Hannesson reyndist Jóhönnu betri en enginn sem forseti alþingis frá því í byrjun febrúar 2009 til þingkosninga 25. apríl, 2009. Hann tók að sér að þrjóskast við í hennar nafni í stjórnarskrárumræðunum á þingi. Þau héldu hins vegar svo illa á málinu, að afgreiðslu þess lauk ekki. Mér þótti mikið til Guðbjarts koma á forsetastóli þingsins. Nú er talað um, að hann sé að fikra sig upp í formannsstól Samfylkingarinnar í skjóli Jóhönnu. Össuri mislíkar það um leið og hann saknar Kristjáns, vinar síns, úr ríkisstjórninni.

Valdahlutföll hafa breyst innan Samfylkingar vegna ráðherraskiptanna. Armur Jóhönnu hefur treyst stöðu sína gagnvart Össuri.

Steingrímur J. varð að taka Ögmund í ríkisstjórnina í von um að þingflokkurinn yrði starfhæfur, af því að armar hans teldu jafnvægi ríkja í ráðherrahópnum. Hafi Jóhanna styrkt stöðu sína innan Samfylkingar með uppstokkun ráðherra, hefur staða Steingríms J. veikst innan eigin flokks vegna breytinga í ráðherraliði. Hann hafði alla VG-ráðherra nema Jón Bjarnason á sínu bandi nú standa þeir Ögmundur og Jón saman innan ríkisstjórnarinnar og gegn Steingrími J. ef svo ber undir.

Ríkisstjórnin veikist ekki við, að Gylfi Magnússon hverfi úr henni, enda hefur hann glatað trausti gagnvart þjóð og þingi. Hins vegar er verulegt áfall fyrir ríkisstjórnina, að Ragna Árnadóttir lætur af ráðherrastörfum. Brottför hennar sýnir, að skynsemi ræður ekki þessari uppstokkun heldur innri spenna í stjórnarflokkunum og milli þeirra.