Mánudagur, 20. 09. 10.
Skrifaði pistil um misbeitingu á stjórnarskránni. Nú er stjórnarliðið að splundrast vegna landsdómsákæru Atla Gíslasonar. Honum væri mestur sómi af því eftir harða gagnrýni Jóhönnu Sigurðardóttur á störf hans að segja af sér formennsku í nefndinni.
Atli nýtur einskis trausts hjá öðrum en nokkrum meðnefndarmönnum sínum, vinstri-grænum og Þór Saari. Hinn síðast nefndi bauð sig fram til þings í því skyni að leggja öll spil á borð kjósenda. Þór Saari hefur hins vegar gengið í þagnarbindindi með Atla, þegar kemur að því að upplýsa almenning um þau gögn, sem liggja að baki kröfunni um ákæru á hendur fjórum fyrrverndi ráðherrum.
Vinstri-grænir ganga á eftir Samfylkingunn inn í ESB, þótt þeir segist vera andvígir aðild. Nú láta þeir svo sjálfan forsætisráðherra sparka í sig vegna máls, sem þeim er kærast, að breyta andstæðingum sínum í sakamenn. Hvernig skyldi Steingrímur J. tala sig út úr þessari nýjustu kreppu stjórnarinnar?
Jóhönnu og Steingrími J. hefur verið hugleikið að þétta raðirnar á bakvið ríkisstjórnina, því að þá yrði þjóðinni best borgið. Jóhanna lagði sig einmitt fram um það á þingi í dag - eða hvað?
Spyrja má: Hvers á þjóðin að gjalda að hafa þessi ósköp yfir sér?