3.9.2010

Föstudagur, 03. 09. 10.

Mikið öskurok var hér í Fljótshlíðinni í morgun og er enn, þegar þetta er skrifað á þriðja tímanum. Vindur er sterkur að austan og ekki hefur rignt enn eins og spáð var. Stundum sést móta fyrir jöklinum, þegar aðeins lægir en annars hverfur hann í öskumökkinn. Ég sló í gær, þegar ég rakaði snemma í morgun, rauk aska úr heyinu, þannig að fíngert efni leggst í svörðinn.

Þegar ég skrifaði um ráðherrakapalinn í gær, hafði ég ekki séð viðtalið við Álfheiði Ingadóttur, fráfarandi heilbrigðisráðherra, á tröppum Bessastaða um hádegisbilið í gær, sem birtist á mbl.is og sjá má hér. Athygli mín beindist ekki að því, fyrr en ég hafði lesið pistil á vefsíðu Einars Kr. Guðfinnssonar, þar sem hann segir réttilega, að vinstri-grænir hafi tryggt stuðning við fjárlagafrumvarpið með því að taka Ögmund Jónasson í stjórnina. Einar segir:

„Álfheiður Ingadóttir fyrrverandi heilbrigðisráðherra sagði frá því..., að markmiðið með þessum tilfæringum hefði einfaldlega verið að tryggja stuðning meirihluta Alþingis við samþykkt fjárlaga. Þetta eru ekki lítil tíðindi. Hvað er ráðherrann fyrrverandi að segja okkur?

Jú. Að í fyrsta lagi hafi ekki verið meirihluti fyrir því fjárlagafrumvarpi sem nú er í prófarkalestri og verður lagt fyrir Alþingi eftir tæpan mánuð. Ríkisstjórn sem ekki hefur meirihluta fyrir fjárlagafrumvarpinu sínu á bara eitt eftir; að segja af sér. Það er það sem beið hennar, samkvæmt þessu að öllu óbreyttu, eftir næstu mánaðarmót.

En við þessu var séð. Hrókeringarnar höfðu þann tilgang að koma í veg fyrir slíkt. Með því að skipa Ögmundi Jónassyni til sætis við ráðherraborðið í húsi Stjórnarráðsins við Lækjatorg, var stuðningurinn tryggður. Flóknara var það ekki.

Stjórnmálaskýring Álfheiðar Ingadóttur segir alla söguna, alla sólarsöguna. Það er búið að smeygja múlnum á órólegu deildina í VG. Og þannig mýld mun hún ganga í takt, með samræmdu göngulagi fornu !“