4.9.2010

Laugardagur, 04. 09. 10.

Samtök iðnaðarins (SI) hafa um nokkurt árabil verið fremst meðal þeirra, sem litið hafa á aðild að ESB og brotthvarf krónunnar fyrir evru sem lausn á öllum vanda íslensks efnahagslífs. Nú kveður hins vegar við annan tón hjá Bjarna Má Gylfasyni, hagfræðingi SI, í tilefni af nýjum tölum um landsframleiðslu á öðrum ársfjórðungi þessa árs. Hann bendir á, að allir undirliðir landsframleiðslunnar séu að dragast saman fyrir utan samneysluna, það er umsvif opinberra aðila. Um sé að ræða mesta samdrátt einkaneyslu og landsframleiðslu milli ársfjórðunga frá bankahruni. Þetta gerist þvert á skilaboð Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar um að „botninum sé náð og betri tíð framundan.“ Hagtölur bendi því miður til annars.

Á vefsíðu SI er Bjarni Már spurður, hvað þurfi að gera til að snúa þróun efnahagsmála til betri áttar. Hann svarar, að fyrst þurfi að leggja til hliðar allar hugmyndir um frekari skattahækkanir, frekar ætti að lækka skatta. Þá segir hann orðrétt:

 „Einkaneyslan er drifkraftur efnahagsstarfseminnar og skattheimtan dregur allan mátt úr henni. Þá er nauðsynlegt að lækka vexti enn frekar og raunar óskiljanlegt að það hafi ekki verið gert með kröftugri hætti enda lítil hætta á veikingu krónunnar með gjaldeyrishöftin. Þá þarf að koma stórframkvæmdum í gang og leggja áherslu á arðbærar vegaframkvæmdir. Þetta er hægt en ekki með aðgerðaleysi og aukinni skattheimtu.“

Eftir að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur var mynduð með ESB-aðildarumsókn á stefnuskrá sinni fögnuðu Samtök iðnaðarins því og töldu aðild og evru bestu leiðina til að bjarga íslenskum efnahag. Nú minnist hagfræðingur SI ekki einu orði á evru eða ESB-aðild, þegar hann nefnir úrræðin, sem nauðsynleg eru til að snúa vörn í sókn.

Ekkert af því, sem hann nefnir, gerist í tíð þessarar ríkisstjórnar. Hún verður að víkja til að horfið verði frá aðgerðaleysi og aukinni skattheimtu.