Föstudagur, 16. 09. 10.
Atli Gíslason, formaður hrunnefndar alþingis, var ekki sannfærandi, þegar hann flutti þann boðskap í Kastljósi kvöldsins, að ákæra bæri fjóra fyrrverandi ráðherra vegna bankahrunsins. Furðulegt er, að Atli leggi málið þannig fyrir, að ekki sé um annað að ræða en ákæra ráðherrana fyrrverandi. Efnisleg rök hans voru fátækleg og tilraun hans til að skýra lögfræðina á þann hátt, að áhorfendur áttuðu sig á því, að ákæra væri óhjákvæmileg, misheppnaðist.
Nefnd Atla Gíslasonar flytur mál fyrir þingið á sama hátt og framkvæmdavaldið kemur þangað með mál. Mál ráðherra eru undirbúin utan þings og lögð fyrir það. Eftir fyrstu umræðu taka nefndir til við að skoða málin, leggja mat á þau með sérfræðingum sínum. Síðan ræða þingmenn þau að nýju fyrir opnum tjöldum í þingsalnum.
Í upphafsræðu Atla fyrir tillögum nefndar sinnar vakti sérstaka athygli, að hann lagði áherslu á sjálfstæði alþingis, rétt þingmanna til að skoða mál án fyrirmæla frá framkvæmdavaldinu. Nú bregður svo við, þegar rætt er um, að fastanefnd alþingis, allsherjarnefnd, fjalli um tillögur nefndar Atla Gíslasonar, bregst Atli við á þann hátt, að í því felist vantraust á hann og nefnd hans. Þá fjúka orð hans um sjálfstæði þingsins út í veður og vind. Nú ber þingmönnum að lúta forræði hans og ekki leggja sjálfstætt mat með nefndarvinnu á tillögur hans.
Fróðlegt verður að fylgjast með því, hvort þingmenn beygi sig undir kröfu Atla um, að fastanefnd þingsins fái ekki að falla um tillögur nefndar hans. Atli lét ekki undan kröfu þingmanna um aðgang að gögnum nefndar hans, fyrr en sjálfstæðismenn hótuðu að stöðva umræður um málið.