8.9.2010

Miðvikudagur, 08. 09. 10.

Í dag ræddi ég við Stefán Einar Stefánsson, guðfræðing, í þætti mínum á ÍNN . Er viðtalið sýnt á tveggja tíma fresti frá klukkan 20.00 í kvöld í einn sólarhring. Við ræðum stöðu þjóðkirkjunnar, þagnarskyldu presta og annað í þeim dúr.

Nú dregur að því, að þingnefnd undir formennsku Atla Gíslasonar, þingmanns vinstri-grænna, um viðbrögð alþingis við rannsóknarskýrslunni um bankahrunið. Nefndin sendi fyrir nokkrum mánuðum ríkissaksóknara erindi, sem gaf til kynna, að hún teldi, að hugsanlega hefðu seðlabankastjórar gerst sekir um saknæmt athæfi í embættisfærslu í tengslum við bankahrunið. Ríkissaksóknari sá ekki ástæðu til að hafast að í málinu. Það tók hann ekki langan tíma að komast að þeirri niðurstöðu og raunar sérkennilegt, að nefndin hefði ekki sjálf geta komist að henni.

Af þessu málskoti nefndarinnar má draga þá ályktun, að innan hennar eigi það sjónarmið hljómgrunn, að ákæra beri frekar en komast að efnislegri niðurstöðu innan nefndarinnar. Hlutverk hennar er tviþætt. Í fyrsta lagi að segja álit sitt á skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Í öðru lagi að leggja fram á alþingi tillögu um að draga eigi einhverja ráðherra í ríkisstjórn Geirs H. Haarde fyrir landsdóm, telji nefndin efnislegar ástæður til þess.

Hvað sem öðru líður er ekki heppilegt, að þingmenn verði á einu máli um niðurstöðu nefndar Atla Gíslasonar. Samhljóða afstaða þingmanna byggist gjarnan á því, að sammælst er um lægsta samnefnara, oft í því skyni að komast hjá umræðum í þingi um erfið og viðkvæm mál. Að virkja landsdóm og stefna fyrrverandi ráðherrum fyrir hann er svo mikilvæg ákvörðun, að hana ber að ræða ítarlega og í þaula fyrir opnum tjöldum, áður en alþingi kemst að niðurstöðu í málinu.