5.9.2010

Sunnudagur, 05. 09. 10.

Kristrún Heimisdóttir, lögfræðingur, sem sat á þingi fyrir Samfylkinguna, eftir að ríkisstjórn hennar og vinstri-grænna var mynduð 1. febrúar 2009, sagði á fundi á Hótel Borg 4. september, að Svavari Gestssyni hefði verið falið að leiða Icesave-samningaviðræðurnar, af því að hann hefði næstum orðið aðalsamningamaður Íslands í aðildarviðræðum við ESB.  Á visir.is er þetta haft eftir Kristrúnu:

„Ég held, að ástæðan fyrir því, að Svavar Gestsson var formaður samninganefndar um Icesave-málið sé sú, að þeir sem sömdu stjórnarsáttmálann fyrir okkur í vinstri stjórninni í ársbyrjun 2009 voru nánast búnir að samþykkja að hann yrði aðalsamningamaður um Evrópusambandið.“

Á Evrópuvaktinni er vakin athygli á því, að þessi ummæli Kristrúnar benda til þess, að ESB-aðildarmálin hafi verið mun lengra komin fyrir kosningar 25. apríl 2009, en áður hefur fram komið.

Vinstri-grænir gengu til kosninganna sem andstæðingar ESB og hafa síðan látið þannig, að þeim hafi verið nauðugur einn kostur fyrir myndun ríkisstjórnar 10. maí 2009 að semja um, að alþingi afgreiddi aðildarumsóknina að ESB.

Orð Kristrúnar lýsa enn meira baktjaldamakki við myndun minnihlutastjórnarinnar 1. febrúar 2009 en áður var vitað.