28.9.2010

Þriðjudagur, 28. 09. 10.

Ég skrifaði pistil hér á síðuna um þá niðurstöðu 33 þingmanna að ákæra Geir H. Haarde og draga hann fyrir landsdóm. Þingmennirnir leggjast lágt með því að stefna stjórnmálaandstæðingi fyrir refsidóm. Það er rétt, sem Geir sagði á Stöð 2, að Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri-grænna, stendur að baki þessum ofsóknum. Hann er mesti óþurftarmaður íslenskra stjórnmála um þessar mundir.

Steingrímur J. stóð að því með Árna Þór Sigurðssyni, formanni vinstri-grænna í utanríkismálanefnd alþingis, að senda ESB-aðildarumsókn Íslands til Brussel.

Steingrímur J. stóð að því með Svavari Gestssyni að semja um Icesave á hinn versta hátt fyrir þjóðina.

Steingrímur J. stóð að því með Indriða H. Þorlákssyni að breyta skattkerfinu til verri vegar og grafa undan sparnaði og atvinnustarfsemi.

Steingrímur J. stóð að því með Atla Gíslasyni að breyta pólitískum andstæðingi í sakamann.