27.9.2010

Mánudagur, 27. 09. 10.

Á Evrópuvaktinni er sagt frá því, að ísþekjan á Norður-Íshafi hafi verið hin þriðja minnsta sumarið 2010 frá því að mælingar hófust.

Í dag hittust sjávarútvegsráðherrar ESB-ríkjanna í Brussel og ræddu meðal annars makríldeiluna við Íslendinga og Færeyinga. Þeir veittu Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra ESB, umboð til að semja. Hún sagðist ekki ætla að ná samkomulagi fyrir hvaða verð sem væri. Frá blaðamannafundi hennar, sem sjá má á netinu, er sagt á Evrópuvaktinni. Ég tel þá frásögn gefa betri mynd af stöðu mála en fréttir um, að ESB ætli sér í stríð við Færeyinga og Íslendinga á þessari stundu. Damanaki treystir því, að samkomulag takist um málið á fundi í London 12. október nk.

Embættismenn ESB hafa nýlega hitt starfsbræður sína í Færeyjum og hér á landi. Eftir þá fundi hefur samkomulag legið í loftinu. Víst er, að Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, hefur ekki lagt hart að sér á pólitískum vettvangi vegna makríldeilunnar. Hann vill hana örugglega úr sögunni til að hún trufli ekki ESB-aðlögunarviðræðurnar. Um það eru hann og Maria Damanaki sammála.