21.9.2010

Þriðjudagur, 21. 09. 10.

Nýtt hefti Þjóðmála kom út í dag, 3. hefti 6. árgangs undir ritstjórn Jakobs F. Ásgeirssonar. Meðal þess, sem ég skrifa í heftið, er grein um ris og fall Baugsmiðlanna. Augljóst er, að fjölmiðlaveldi Baugs hefur frá fyrsta degi staðið á brauðfótum og ekki getað þrifist nema með aðstoð banka og fyrir auglýsingar frá Baugsfyrirtækjum. Á þennan hátt hefur verið grafið undan heilbrigðum viðskiptaháttum á fjölmiðlamarkaði.

Nú má sjá á netinu síðasta þátt minn á sjónvarpsstöðinni ÍNN, þar sem ég ræddi við Stefán Einar Stefánsson, guðfræðing og framkvæmdastjóra Hins íslenska biblíufélags. Við ræddum stöðu mála innan kirkjunnar og kristni í landinu.

Ástæða er til að velta fyrir sér, hve lengi Jón Gnarr endist til að gegna embætti borgarstjóra. Augljóst er, að honum líður bölvanlega við þessar aðstæður. Að sjá hann standa með borða á Austurvelli með fáeinum öðrum til að mótmæla því við forseta Slóvakiu, að Sígaunabörn í landi hans fái sérkennslu en séu ekki í almennum bekkjardeildum, var brjóstumkennanlegt. Þá fékk Jón Gnarr ekki að flytja ræðu um þetta efni í Höfða, af því að ákveðið var að fella niður ræðuhöld þar, vegna þess hve mikil seinkun var á ferð slóvakíska forsetans. Viðdvölin í Höfða var stytt til að vinna upp tíma. Skyldi það hafa verið gert vegna óska forsetans?

Fréttir berast af því, að biðlistar lengist stöðugt hjá Jóni Gnarr, af því að hann veiti fólki ekki skipulega viðtöl. Þá kvartar Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi vinstri grænna, undan því, að Jón Gnarr svari ekki spurningum á borgarstjórnarfundi.

Á visir.is má lesa að kvöldi 21. sept haft eftir vefsíðu Jóns Gnarr:

„Hann segist vera kominn heim og sé sorgmæddur og hugsi. „Hvað er að starfsháttum í stjórnmálum á Íslandi? Þrætur, klækir og rifrildi," segir Jón í færslu sinni. Hann spyr hvort að það sé ekki hægt að breyta þessu. „Er þetta svona allsstaðar? Skilst að Alþingi sé í svipuðum gír. Er hægt að breyta þessu?"“

Jón Gnarr breytir engum starfsháttum stjórnmálamanna til betri vegar með framgöngu sinni í embætti borgarstjóra. Undarlegt er, hve mikið langlundargeð honum er sýnt. Ef stjórnmálamaður sæti í embætti borgarstjóra og hagaði sér á sama hátt og Jón Gnarr, yrði hann fyrir aðkasti. Fjölmiðlamenn leggja annan og mildari kvarða á verk og framgöngu Jóns Gnarr en stjórnmálamanna.