9.9.2010

Fimmtudagur, 09. 09. 10.

AlÞingi samþykkti í dag breytingar á stjórnarráðslögunum, sem leiðir til þess, að dómsmálaráðuneytið verður hluti af innanríkisráðuneyti með samgöngumálum, sveitarstjórnarmálum og fleiri málaflokkum. Ég tel þetta mjög misráðið og lýsa mikilli vanþekkingu á þeim skyldum, sem hvíla á dómsmálaráðuneytinu. Þar eru verkefni, sem eru annars eðlis en almennt er að finna innan stjórnarráðsins, því að fjallað er um persónuleg málefni og réttindi. Þeim er best sinnt af sérfræðingum, sem starfa í ráðuneyti, sem sérhæfir sig í þessum málaflokkum. Það er engin tilviljun, að í öllum löndum starfa ráðuneyti, sem sérhæfa sig í þeim málum, sem eru á verksviði dómsmálaráðuneyta.

Jóhanna Sigurðardóttir fór með rangt mál í fjölmiðlum 2. september, þegar hún sagði, að rannsóknarnefnd alþingis hefði talið nauðsynlegt að sameina ráðuneyti og stækka þau. Ekkert slíkt stendur í skýrslu nefndarinnar. Jóhanna skipaði hins vegar nefnd, til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Í fljótræðislegu áliti hennar er gefið til kynna, að stærri ráðuneyti kunni að skila betra verki en minni og við stækkun ráðuneyta verði sparnaður. Í áliti nefndarinnar er þessu slegið fram án nokkurra útreikninga eða tillagna um útfærslu. Því síður liggur fyrir úttekt á verkefnum ráðuneyta til að unnt sé að meta með hliðsjón af þeim, hvernig þau falla saman.

Vinnubrögðin við þessa breytingu á stjórnarráðin eru forkastanleg.