30.9.2010

Fimmtudagur, 30. 09. 10.

Mér sýnast fleiri og fleiri hreyfa þeirri skoðun opinberlega, að óhjákvæmilegt sé að rjúfa þing og efna til kosninga. Ég sagði þetta í pistli hér á síðunni sl. laugardag, áður en þau ósköp urðu á alþingi, að samþykkt var að ákæra Geir H. Haarde. Þar réðu nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar úrslitum. Óburðugar eru röksemdir Skúla Helgasonar og Marðar Árnasonar, þingmanna Samfylkingarinnar, fyrir því, hvernig þeir greiddu atkvæði.

Skúli Helgason hefur rætt við fjölmiðla til að skýra mál sitt og fékk hátíðarviðtal í upphafi 8 frétta RÚV að morgni 29. september í því skyni. Þeim mun meira, sem hann talar, því óskiljanlegri verður afstaða hans. Hann segist hafa viljað ákæra Geir, af því að hann hafði aðgang að upplýsingum, stöðu og vald til að gera eitthvað, sem átti að draga úr áhrifum hörmunga vegna atvika, sem enginn sá fyrir hvers eðlis yrðu, fyrr en þau gerðust og bankar hrundu. Hann lét hins vegar undir höfuð leggjast að ákæra Björgvin G. Sigurðsson, ráðherra bankamála, eða Árna M. Mathiesen, ráðherra fjármála. Hvaða aðgang að upplýsingum, stöðu og völd höfðu þessir ráðherrar ekki, sem veldur þessari aðgreiningu af hálfu Skúla Helgasonar?

Samfylkingarfólkið, sem ákærði eftir því hvaða einstaklingur átti hlut að máli, lætur síðan eins og það hafi látið sannfæringu og samvisku ráða, aðrir þingmenn hafi látið eitthvað annað, flokkslínu, ráða. Sjálfstæðisþingmönnum er af sumum legið á hálsi fyrir að hafa ekki setið hjá, eftir að Geir var ákærður, þar með hefðu fleiri hlotið ákæru. Þingmennirnir voru hins vegar sammála um þá sannfæringu, að ekki ætti að ákæra neinn og fóru ekki í manngreinarálit með þá skoðun sína. Þetta er málefnalega skýr afstaða en ekki hentistefna eins og hjá hinu reikula samfylkingarfólki.

Í Staksteinum Morgunblaðsins er í dag rifjað upp atvikið síðdegis 24. nóvember, 2008, þegar Steingrímur J. trylltist í þingsalnum, gerði hróp að mér, óð að ræðustólnum og stillti sér ógnandi fyrir framan mig, gekk síðan að Geir H. Haarde og lagði hendur á hann. Hér má lesa samtímafrásögn mína af atvikinu.  Hér er einnig krækja á ræðu mína, en upphlaup Steingríms J. er í lok ræðunar efti 14.40 mínútu. Þá segi ég einnig frá þessu atviki hér.