14.5.1998 0:00

Fimmtudagur 14.5.1998

Klukkan 12.00 vorum við Rut á Reykjavíkurflugvelli til að taka á móti Margréti Danadrottningu og Henrik prins. Það gekk á með skúrum í hvassviðrinu. Pappírsflöggin sem blessuð leikskólabörnin héldu á úti við rauða dregilinn blotnuðu svo fljótt, að sum héldu bara á prikinu, þegar drottningin birtist. Klukkan 13.30 var Menningarnet Íslands opnað við hátíðlega athöfn í Listasafni Íslands. Stefna ráðuneytisins um að opna þetta net var mótuð í ársbyrjun 1996 og síðan hafa margir lagt hönd á plóginn. Vefsíðan er í vörslu Skímu og dr. Gunnar Harðarson er formaður stjórnar Menningarnets Íslands. Hér er um merk þáttaskil í menningarsögunni að ræða, því að netið á eftir að vaxa og dafna. Verður það ómetanlegur vettvangur til að kynna íslenska menningu og stuðla að auknum samskiptum milli stofnana.