16.5.1998 0:00

Laugardagur 16.5.1998

Klukkan 9.30 fórum við í Kringluna og opnaði ég þar nýtt sýningarsvæði á vegum Foldu og Kringlunnar. Hófu félagar í Leirlistarfélaginu að nýta þessa aðstöðu, sem er þannig að segja má, að gestir Kringluna gangi á milli listaverkanna. Klukkan 12.00 þáðum við hádegisverðarboð Margrétar Danadrottningar í snekkju hennar, Dannebrog, við Faxagarð í Reykjavíkurhöfn. Var þar allt með einstökum glæsibrag. Að loknum málsverði gengum við með drottningunni, eiginmanni hennar og forsetahjónunum að Hafnarhúsinu. Var mikill fjöldi fólks á hafnarbakkanum að fagna drottningunni. Var uppstytta og sól, þegar við gengum þessa leið. Listahátíð var sett í porti Hafnarhússins. Þar stigu afrískir listamenn frá Togo, sögðu einhverjir, að þetta hefði verið regndans. Þegar borgarstjóri flutti seinni ræðu sína við athöfnina og var að opna sýningu á verkum Erró í Hafnarhúsinu, skall mikið hagél á gestum í portinu. Kom hjálpsamur maður hlaupandi með regnhlíf til okkar Rutar. borgarstjóri hélt áfram að tala, þótt varla heyrðist til hennar, þegar haglið skall á regnhlífum og stéttinni. Líklega hafa gestirnir frá Togo orðið mest undrandi, þar sem þeir stóðu léttklæddir og horfðu á hvítu kornin, sem komu af himni. Síðan flýttu allir sér inn í húsið og skoðuðu myndir Errós. Við Rut höfðum þar stutta viðdvöl en skruppum heim og þegar við komum upp að Snorrabraut virtist ekki nein úrkoma hafa orðið þar. Klukkan 16.00 var sýning Margrétar drottningar á kirkjuklæðum opnuð í Bogasal Þjóðminjasafnsins. Kom það í minn hlut að flytja þar ræðu ásamt herra Karli Sigurbjörnssyni biskupi. Drottning bauð síðan gestum að skoða sýningu sína, sem er mjög fallleg. Klukkan 19.30 var síðan kvöldverður fyrir drottningu og fylgdarlið hennar á Bessastöðum í boði forsetahjónanna.