30.5.2006 9:27

Þriðjudagur, 30. 05. 06.

Þing kom saman að nýju kl. 13. 30 í dag og hófst fundurinn á löngum umræðum um störf þingsins og fundarstjórn forseta eins og þeir liðir heita í þingsköpum, sem notaðir eru til að leyfa stjórnarandstöðunni að blása, þegar henni liggur mikið á hjarta. Nú snerust umræður hennar um svonefnt nýsköpunarfrumvarp Valgerðar Sverrisdóttur og mátti ætla, að afgreiðsla þess úr iðnaðarnefnd mánudaginn 29. maí hefði verið eitthvert voðaverk. Stjórnarandstöðunni þótti það stappa nærri pólitísku hneyksli, að ráðherrar skyldu hafa rætt saman um frumvarpið, eftir að það var komið til iðnaðarnefndar og komið sér saman um breytingar á því til að styrkja stuðning við það meðal stjórnarliða. Taldi Steingrímur J. Sigfússon þetta mikla niðurlægingu fyrir alþingi og móðgun af hálfu framkvæmdavaldsins - honum þótti það hins vegar líklega ekki móðgun við þingheim, þegar hann sagði, að við afgreiðslu málsins úr iðnaðarnefnd hefðu „atkvæðavélar“ verið kallaðar á vettvang en með orðinu vísaði hann til samþingmanna sinna.

Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sá tengsl á milli afgreiðslu málsins úr iðnaðarnefnd og að sjálfstæðismenn og framsóknarmenn hefðu myndað meirihluta í borgarstjórn sama daginn. Varð henni tíðrætt um „helmingaskiptakló“ flokkanna af þessu tilefni og talaði um það fyrirbrigði af nokkrum ótta. Í kvöld var Katrín síðan komin í Kastljósið til að ræða kenningu sína um þessi ógurlegu tengsl við Gísla Martein Baldursson, borgarfulltrúa sjálfstæðismanna, sem kom augsýnilega af fjöllum, þegar þessi mikla samsæriskenning var undir hann borinn - hann hefði tekið þátt í viðræðum um myndun nýr meirihluta í borgarstjórn og þetta mál hefði bara alls ekki borið neitt á góma - kenning Katrínar væri algjörlega úr lausu lofti gripinn.

Stjórnandi umræðna þeirra Katrínar og Gísla Marteins, Sigmar Guðmundsson, nálgaðist viðfangsefnið eins og þarna væri verið að ræða stórpólitískar uppljóstranir - þetta hefði jú gerst sama daginn! Gísli Marteinn sagði réttilega, að margt hefði gerst þennan dag, án þess að það tengdist myndun meirihluta í borgarstjórn og afgreiðsla iðnaðarnefndar væri eitt af því.

Ég sat þingflokksfund sjálfstæðismanna í gær, þar sem rætt var um afgreiðslu nýsköpunarfrumvarpsins og væntanlega iðnaðarnefndarfund, sem ákveðinn hafði verið mörgum vikum fyrir borgarstjórnarkosningar. Hefði einhver á þingflokksfundinum nálgast viðfangsefnið á þann veg, að afgreiða yrði málið úr nefnd til að unnt væri að mynda meirihluta í Reykjavík, er ég viss um, að það hefðu verið talin fjarstæðukennd rök, enda vissi þingflokkurinn ekki annað en viðræður stæðu yfir milli sjálfstæðismanna og frjálslyndra.

Fjarstæðukenning Katrínar Júlíusdóttur dugði til að hún kæmist í Kastljósið. Spyrja má í samsærisanda: Voru það samantekin ráð? Úr því að Kastljósið vill kynnast viðhorfum þingmanna Samfylkingarinnar, hvers vegna skyldi það ekki kalla á þingmennina tvo, sem stóðu í eldlínunni? Lúðvík Bergvinsson, sem tapaði illa í Vestmannaeyjum, og Jón Gunnarsson, sem tapaði sæti sínu í sveitarstjórninni í Vogum, og þar með meirihlutanum til sjálfstæðismanna.