Þriðjudagur, 23. 05. 06.
Var klukkan 14.00 í Njarðvík, þar sem við Jón Eysteinsson sýslumaður opnuðum nýja framleiðslustofu vegabréfa með örgjörva og ég afhenti fyrsta vegabréfið. Ég heyrði, að í fréttum hljóðvarps ríkisins kl. 18.00 hefði Guðrún Ögmundsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, talið lög ekki standa til útgáfu nýju vegabréfanna, af því að frumvarp um vegabréf hefði ekki verið afgreitt á alþingi.
Meginnýmæli frumvarpsins er að veita heimild til að skrá fingraför í vegabréf en það verður ekki gert fyrr en 2009, svo að það kemur ekki að sök, að heimildin hafi ekki enn verið samþykkt. Þá er í lögunum gert ráð fyrir að útgáfa vegabréfanna færist frá útlendingastofnun til þjóðskrár og hefur það verið leyst með samningi, þar til lög mæla fyrir um flutninginn.
Mér þótti skrýtið, að misskilningur Guðrúnar um lögheimildir var endurtekinn í fréttum kl. 22.00, þótt fréttamaður hefði hringt í mig og fengið vitneskju um lögheimildir fyrir þann fréttatíma. Hitt er raunar einnig skrýtið, að fréttastofan skyldi ekki leita skýringa dómsmálaráðuneytis á orðum Guðrúnar, áður en þau voru flutt.
Össur Skarphéðinsson ritaði grein í Morgunblaðið 22. maí til að hræða fólk frá því að kjósa vinstri/græna, af því að þeir ætluðu að starfa með sjálfstæðismönnum í borgarstjórn. Síðan hefur fylgi v/g og sjálfstæðismanna vaxið dag frá degi samkvæmt könnunum og í dag segir Gallup að Samfylking fái ekki nema 25% og 4 menn í Reykjavík. Össur ætti að rita nýja grein um málið í Morgunblaðið.