27.5.2006 1:00

Laugardagur, 27. 05. 06.

Þegar hlustað er á spyrla í ljósavakamiðlum á kosningakvöldi, mætti ætla, að kosningar snerust um, hvort flokkum tækist að ná meira fylgi í kosningum en þeim er spáð samkvæmt könnunum. Að nálgast úrslit á þennan veg gefur alls ekki rétta mynd af hinni raunverulegri niðurstöðu. Stjórnmálamenn starfa samkvæmt því umboði, sem þeir fá í kosningum en tölur í könnunum eru aðeins vísbendingar um fylgi á þeim tíma, þegar kannað er.

Hvernig sem á málið er litið, er ekki unnt að líta á kosningaúrslitin í dag, laugardaginn 27. maí, á annan veg en þann, að Sjálfstæðisflokkurinn geti mjög vel við þau unað með hliðsjón af því, að hann hefur verið kjölfesta í ríkisstjórn síðan 1991. Sú skýring, að verið sé að refsa ríkisstjórninni og refsingin bitni á Framsóknarflokknum, segir jafnframt, að stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, Samfylkingin, sé ekki að styrkjast að sama skapi, hún er að tapa. Á landsvísu geta hvorki Framsóknarflokkur né Samfylking fagnað neinu eftir þessar kosningar, þótt flokkarnir geti á einstökum stöðum hampað viðunandi niðurstöðu.

Vinstri/græn styrkja stöðu sína. Nú reynir á, hvort þau eru til þess fallin að eiga raunhæft samstarf við aðra flokka, þar á meðal Sjáfstæðisflokkinn. Styrkur vinstri/grænna sýnir, að markmiðið með sameiningu vinstri manna í einn flokk hefur ekki náðst. Reynt hefur á vinstri/græn í meirihluta í ýmsum sveitarstjórnum, þar á meðal í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn í Skagafirði. Hvergi hefur hins vegar reynt á það, hvernig frjálslyndir reynast við stjórn sveitarstjórna – reynsla mín af framgöngu Ólafs F. Magnússonar í borgarstjórn Reykjavíkur hefur oftar en einu sinni orðið tilefni þungrar gagnrýni af minni hálfu.

Samfylkingarfólk talar um niðurstöðuna í Reykjavík á þann veg, að það haldi fjórum borgarfulltrúum í Reykjavík. Þetta er mikil ósvífni við fyrrverandi samstarfsmenn í R-listanum og lýsir aðeins þeim blekkingarleik, sem þar tíðkaðist, þegar rætt var um Ingibjörgu Sólrúnu og Dag B. sem hlutlaus,

Ég kveð borgarstjórn Reykjavíkur sáttur við niðurstöðuna í kosningunum í dag. Markmið mitt með framboði til borgarstjórnar árið 2002 var að fella meirihluta R-listans – hann er splundraður og úr sögunni og Samfylkingunni hefur mistekist að ná 30% markinu í Reykjavík til staðfestingar á því, að flokkurinn sé kominn í meistaradeildina. Ég kveð borgarstjórn sáttur í fullvissu þess, að sjálfstæðismenn eigi eftir að leiða meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Við sjálfstæðismenn erum enn að glíma við þann vanda, sem myndaðist með því að Ólafur F. Magússon klauf Sjálfstæðisflokkinn fyrir kosningarnar 2002 – þar er að finna skýringuna á því, hvers vegna við erum að berjast við að halda fylginu yfir 40% mörkin.