31.5.2006 21:29

Miðvikudagur, 31. 05. 06.

Í Morgunblaðinu í dag birtist á þingfréttasíðu mynd af Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra, þar sem hún situr að því er virðist frekar döpur í bragði í ráðherrastól sínum á þingi og við borðið fyrir framan hana stendur Birgir Ármannsson alþingismaður fremur þungbrýnn. Með myndinni er þessi fyrirsögn:

Sátu undir harðri gagnrýni

og síðan texti, sem hófst á þessum orðum:

„Stjórnarandstaðan gagnrýndi framgöngu ríkisstjórnarflokkanna harðlega í gær og sökuðu þá um hrossakaup. Á myndinni hlusta Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og flokksbróðir hennar Birgir Ármannsson á ræður...“

Ég sat undir þessum ræðum stjórnarandstöðunnar, á meðan henni var heitast í hamsi, en ég varð ekki var við, að hún veittist sérstaklega að þeim Þorgerði Katrínu og Birgi eins og myndin, fyrirsögnin og textinn gáfu til kynna. Mér þótti með öðrum orðum gefin af þeim óverðskulduð mynd á þingfréttasíðunni.

Ég svaraði í dag fyrirspurn Björgvins G. Sigurðssonar. þingmanns Samfylkingarinnar, um hugverkastuld og vék ég þar sérstaklega að hugbúnaðarstuldi og nýlegri alþjóðlegri samanburðarskýrslu um hann og lét ég þess getið, að  íslenskir fulltrúar þeirra, sem stóðu að skýrslunni, hlytu að birta niðurstöður varðandi Ísland og var það gert, eftir að umræðunum lauk. Þar kemur enn fram, að hugbúnaðarþjófnaður er hér meiri en í nágrannalöndunum og erum við líkari Asíuþjóðum en Norðurlandabúum í þessu efni. Alþingi samþykkir vonandi núna frumvarp frá mér, sem á að auðvelda eigendum höfundarréttar á þessu sviði að gæta þessa réttar síns.

Glöggur vefsíðulesandi vakti athygli mína á því, að Össur Skarphéðinsson hefði ekki sagt eitt aukatekið orð um sveitarstjórnarkosningarnar, eftir að úrslitin lágu fyrir. Þögn hans á vefsíðunni ossur.is er líklega virðingarvottur við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og formannstíð hennar. Nema honum hafi brugðið svona mikið við úrslitin, að hann treysti sér alls ekki til að tjá sig um þau - kallar Össur þó ekki allt ömmu sína í þeim efnum.