4.5.2006 20:47

Fimmtudagur, 04. 05. 06.

Vegna þess að varamaður er fyrir mig á þingi, hef ég ekki þurft að vera þar í dag, þegar verið er að búa sig undir að fresta fundum þess fram yfir 27. maí, eða sveitarstjórna-kjördag.

Helsta slagorð Björns Inga Hrafnssonar, frambjóðanda Framsóknarflokksins til borgarstjórnar, er, að þjóðarsátt sé um Löngusker - auglýsir hann þetta grimmt. Auglýsingin hefur þó ekki sannfært Hjálmar Árnason, þingflokksformann framsóknar, sem ekki er sama sinnis og Björn Ingi og rauf þannig þjóðarsáttina. Raunar skil ég ekki, hvernig Birni Inga dettur í hug að kenna þetta stefnumál sitt við þjóðarsátt.

Rætt var við Dag B. Eggertsson í fjölmiðlum fram eftir degi um þá hugmynd Þyrpingar, fasteignafélags, og Minjaverndar, fasteignafélags, að flytja húsin í Árbæjarsafni út í Viðey til að Minjavernd gæti sinnt endurreisn þeirra þar og Þyrping reist sérbýlishús á Árbæjarlandinu. Hefði mátt ætla, að engum hefði áður dottið í hug að nýta Viðey undir gömul hús - en hugmynd um það er síður en svo ný á nálinni. Dagur talaði um málið eins og það væri til þess fallið að afla honum atkvæða - ég held, að það sé borin von, hvað sem hugmyndinni sjálfri líður.