16.5.2006 9:04

Þriðjudagur, 16. 05. 06.

Var á borgarstjórnarfundi til 16.30, þegar ég fór í Lögregluskóla ríkisins, þar sem Hafsteinn Gunnar Hafsteinsson hafði skipulagt námskeið með erlendum sérfræðingum í sáttamiðlun fyrir lögreglumenn og var það fjölsótt.  Unnið hefur verið að þessu verkefni í um það bil þrjú ár og nú er það að komast á framkvæmdastig meðal lögreglumanna og síðan almennings.

Á meðan ég sat borgarstjórnarfundinum var einkum rætt um stefnu í samgöngumálum, sem af hálfu R-listans einkennist af andúð á fjölskyldubílnum og óskum um að borgarbúar gangi, hjóli eða fari í strætó. Ein hugmyndin er sú, að borgarbúar fari inn á vefsíðuna www.samferda.is og skoði, hvort einhver nágranni þeirra er að fara í sömu átt og þeir og biðji um far - með þessu verði dregið úr umferð fjölskyldubíla í borginni. Þá vöktu R-listamenn máls á því, að erlendis væri fólki greitt fyrir að nota ekki bíl. Auk þess vilja þeir, að  borgarstarfsmenn greiði undir á stæðum við vinnustaði þeirra og nemendur í framhaldsskólum og háskólum greiði undir bíla sína, komi þeir á þeim í skólana. Helst er að skilja, að þessi gjöld verði innheimt í því skyni að aftra fólki frá því að nota bíla eða til að tryggja hreyfanleika á stæðunum.

Í stefnunni kemur fram, að sóknarfæri felist í því fyrir Strætó bs., að fólki gefist kostur á því að taka reiðhjólið með sér í vagninn - en um það bil 4% ferða höfuðborgarbúa eru með almenningssamgöngum og hlutdeild hjólreiða er 2% - ætlunin er að strætónotkun aukist í 8% á næstu 20 árum og hjólreiða í 6% á næstu 20 árum.

Strætónotkun hefgur dregist jafnt og þétt saman á þeim 12 árum, sem R-listinn hefur verið að berjast gegn fjölskyldubílnum - en nú á sem sé að snúa vörn í sókn með hinni nýju stefnu. Í stefnuskjalinu segir: „Benda skal fólki á að það getur verið sannkallaður gæðatími að ferðast streitulaust með börnum sínum í strætó.“ Þar segir einnig: „Lífið milli húsanna er borgarbúum mikilvægt þar sem göngustígar og gangstéttir stuðla að lifandi umhverfi og auka félagsleg tengsl.“ Ég vek athygli á hinum feitletruðu orðum, sem eru til staðfestingar á vilja R-listans til kynna nýjan lífsstíl.

Þegar kostir hinnar nýju stefnu hafa verið kynntir segir með nokkrum trega í skjali R-listans: „Einkabíllinn er þó (feitlr. mín Bj. Bj.) nauðsynlegur mörgum heimilum....“ Og síðan: „Gjaldfrjáls bílastæði hvetja auk þess til notkunar einkabíla og eru beinir styrkir til starfsmanna sem koma til vinnu sinnar á bíl.“ Hvað skyldi gjald á bílastæðum þurfa að verða hátt að mati R-listans til að ekki sé um styrk til starfsmanna að ræða, ef þeir leggja bíl á lóð vinnuveitanda síns?

Þetta síðasta atriði um gjaldskyldu starfsmanna Reykjavíkurborgar og nemenda í framhaldsskólum og háskólum er eitt af meginatriðum í hinni nýju samgöngustefnu R-listans og með hliðsjón af röksemdafærslu hans mætti ætla, að hann ætlaði að nota auknar tekjur bílstæðasjóðs til að greiða niður leikskólagjöld.

Við sjálfstæðismenn vöktum máls á þessari stefnu R-listans og fjölmiðlum þótti hún fréttnæm en þá brá svo við, að Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri lét reiðina ná tökum á sér og sakaði okkur um „meinlegan þvætting“ - Samfylkingin væri fullfær um að kynna stefnu sína sjálf og síðan hóf hún gamla söngin um „örvæntingafull“ viðbrögð okkar sjálfstæðismanna. Orðbragð Steinunnar Valdísar, þegar hún lendir í pólitískum vanda, er sérstakt rannsóknarefni - eins og þegar hún brást hin versta við merkingum Kópavogsbæjar á bæjarmörkum sínum. Ég ætla ekki að endurtaka hér hvaða keppni hún vildi ekki heyja við Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóra í Kópavogi.

Í Fréttablaðinu í dag er viðtal við Margréti Hallgrímsdóttur þjóðminjavörð í tilefni af því, að Evrópuráð safna veitti Þjóðminjasafninu verðlaun fyrir framúrskarandi árangur. Margrét segir meðal annars:

„Fólk áttaði sig kannski ekki á því að þegar safnið var lokað stóð yfir mikið uppbyggingartímabil. Verið var að endurskoða alla þætti starfseminnar, sem fleiri hundruð manns komu að. Ef við hefðum ekki tekið okkur þennan tíma hefði bara verið tjaldað til einnar nætur og við ekki fengið þessa viðurkenningu. Nú erum við að uppskera fyrir þolinmæðina og erum fyrir vikið komin í fremstu röð. “

Menn ættu að rifja upp hrakspár og ólund Marðar Árnasonar, alþingismanns Samfylkingarinnar, og fleiri vegna lokunar safnsins og bera þær skammir allar saman við þann heiður, sem Þjóðminjasafnið nýtur núna, vegna þess hve vel var staðið að endurreisn þess.