22.5.2006 20:09

Mánudagur, 22. 05. 06.

Fréttir af erindi Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings um símahleranir í kalda stríðinu hljóma eins og aldrei hafi heyrst um, að símar hafi verið hleraðir á þessum árum. Sérstaklega er skrýtið að hlusta á hina gömlu sósíalista og alþýðubandalagsmenn tala eins og símahleranir komi þeim algjörlega í opna skjöldu. Þeir hömruðu þó á því sýknt og heilagt á þessum árum, að stjórnvöld væru að alltaf að hlera síma. Hafi eitthvað komið þeim á óvart í erindinu væri það líklega, að skiptin eru sex og nákvæmlega tilgreind auk þess sem dómsúrskurður  er að sjálfsögðu að baki hverri heimild.

Ég svaraði fyrirspurnum Morgunblaðsins, Fréttablaðsins og fréttastofu hljóðvarps ríkisins um hlerunar-málið í dag. Ég heyrði í NFS-fréttum, að Kristinn Hrafnsson fréttamaður sagðist hafa sent mér tölvuskeyti um málið - hvaða netfang ætli hann hafi notað? Ég fékk skeytið að minnsta kosti ekki.

Hallgrímur Helgason rithöfundur segir frá því í Fréttablaðinu í dag, að hann hafi kosið D-listann í borgarstjórnarkosningunum 2002 og veltir því síðan fyrir sér, hvernig ég hefði orðið sem borgarstjóri. Ég færi Hallgrími síðbúnar þakkir fyrir stuðninginn - hugmyndir hans um breytingar á Reykjavíkurborg undir minni stjórn eru svo fráleitar, að ekki dygðu einu sinni 12 ár til að hrinda þeim í framkvæmd, hefði einhver vilja til þess, sem ég efa stórlega. Í grein Hallgríms kemur enn fram, að öll sýn hans á stjórnmál og stjórnmálamenn tók stakkaskiptum með Baugsmálinu svonefnda. Vona ég svo sannarlega, að hann taki gleði sína á ný, þótt síðar verði.