5.5.2006 9:38

Föstudagur, 05. 05. 06.

Var kl. 14.30 á hótel Nordica og tók við fyrsta hefti af blaðí Félags ábyrgra feðra.

Tvær blaðagreinar vöktu sérstaka athygli mína í dag.

Sagt hefur verið, að nú sé lag fyrir kjósendur í Reykjavík, til að gera upp hug sinn til flugvallar í Vatnsmýrinni, vegna þess að F-listinn og Ólafur F. Magnússon bjóði þann skýra kost, að flugvöllurinn verði þar áfram, fái listinn einhverju ráðið eftir kosningar.

Björn Ingi Hrafnsson, frambjóðandi Framsóknarflokksins, mun hafa vegið nærri Ólafi F. í Kastljósi á dögunum, þegar hann sagði Ólaf F. ekki hafa verið fráhverfan flugvelli á Lönguskerjum - þjóðarsáttarflugvelli framsóknar, þar til í gær að Hjálmar Árnason, þingflokksformaður framsóknar, rauf sáttina. Við orð Björns Inga reiddis Ólafur F. og sagði framsóknarmanninn lygara og það oftar en einu sinni.

Gísli Helgason, formaður Blindrafélagsins, hefur verið varamaður Ólafs F. í borgarstjórn á þessu kjörtímabili og setið nokkra borgarstjórnarfundi. Hann ritar grein í Fréttablaðið í dag undir fyrirsögninni: Flugvöllinn burt. Og það er ekki nóg með, að Gísli vilji flugvöllinn burt úr Vatnsmýrinni, hann vill einnig alla íbúa á Álftanesi á bak og burt, svo að leggja megi flugvöll á nesinu, það ætti að leggja fram áætlun um að rýma nesið og síðan segir Gísli: „Fólkið sem þar býr (á Álftanesi) gæti fengið viðleguíbúðir í yfirgefnum byggingum hersins á Keflavíkurflugvelli. Landið þar sem Reykjavíkurflugvöllur er nú ætti að láta Álftanesbúa hafa og þannig væri byggðin þétt verulega í höfuðborginni. “ Gísli vill jafna Bessastaði við jörðu í þágu nýs flugvallar og flytja forseta Íslands út í Viðey. Hann segir: „Bessastaðir eru því miður tákn kúgunar og yfirgangs til margra alda.“

Gísli vill taka nýjan flugvöll á Álftanesi í gagnið árið 2011 og jafnfram flytja þá forsetasetrið í Viðey og rökstyður ártalið þannig: „Það væri verðugt áð sýna 300 ára minningu Skúla Magnússonar landfógeta virðingu með þessum hætti.“

Ef Ólafur F. meinar það, sem hann segir um flugvöllinn og Vatnsmýrina, sýnir grein Gísla djúpstæðan ágreining milli forystumanna F-listans um framtíð flugvallarins. F-listinn býður alls ekki þann skýra kost í flugvallarmálum, sem frá er sagt, ef Gísli má sín einhvers innan flokksins. Hitt síðan annað mál og ekki minna, að stjórnmálamaður skuli setja fram stefnu, sem miðar að því að þurrka út heilt bæjarfélag og Bessastaði. Spyrja má: Hvers vegna þykir engum fjölmiðli fréttnæmt, að þessi skoðun skuli sett fram í kosningabaráttunni?

Toshiki Toma hefur skrifað fjölmargar greinar undanfarin ár um innflytjendamál, en hann skrifar jafnan undir starfsheitinu: prestur innflytjenda, sem vissulega gefur greinum hans yfirbragð flokkspólitískrar óhlutdrægni. Toma ritar grein í Morgunblaðið í dag undir fyrirsögninni: Er Samfylkingin vakandi? Þar segir Toma lesendum, að hann hafi nýlega sagt skilið við Samfylkinguna og gengið til liðs við vinstri/græna og „sem frekar vinstrisinnaður maður“ óski hann þess innilega, að Samfylkingin endurskoði „stefnuleysi sitt um innflytjendamál við fyrsta tækifæri og marki stefnuna svo eftir verði tekið.“