29.5.2006 21:16

Mánudagur, 29. 05. 06.

Þingflokkur sjálfstæðismanna hittist klukkan 12.00 og ræddi komandi þingfundi.

Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins kom saman kl. rúmlega 15.00 og í upphafi fundar skýrði Geir H. Haarde frá því, að náðst hefði samkomulag milli sjálfstæðismanna og framsóknarmanna um meirihlutasamstarf í Reykjavík. Í bílnum á leiðinni á fundinn heyrði ég Ólaf F. Magnússon, leiðtoga frjálslyndra, barma sér yfir því. að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson hefði slitið við sig meirihlutaviðræðum þá skömmu áður og síðan hefur mátt heyra Ólaf F. lýsa því í smáatriðum, hvernig tímasetningum á fundum þeirra Vilhjálms var háttað, þau Margrét Sverrisdóttir hefðu meira að segja orðið að bíða vansvefta og vannærð í tvo tíma á heimili Ólafs F. að kvöldi sunnudagsins 28. maí, en þá hefði Vilhjálmur Þ. lofað að hitta sig eftir að þeir luku þátttöku í Kastljósi sjónvarpsins. Var helst að skilja, að þau Margrét hefðu, og væru þau ekkert rugluð, eins og Ólafur F. margítrekaði, verið aðframkomin, þegar Vilhjálmur Þ. loksins birtist. Hjá Vilhjálmi Þ. hefur komið fram, að á heimili Ólafs F. hefðu jafnan verið blaðaljósmyndarar ef ekki sjónvarpsmenn, þegar hann hefði komið þangað  Ólafur F. var á fundi með vinstri flokkunum í borgarstjórn fyrir hádegi sunnudaginn 28. maí og segja þau Björn Ingi Hrafnsson, Framsóknarflokki, og Svandís Svavarsdóttir, vinstri/græn, að um hádegi hafi Ólafur F. beðið um matarhlé og samkvæmt orðum þeirra í kvöld mátti helst ætla, að þau teldu Ólaf F. enn í mat, en Ólafur F. sagði hins vegar að Dagur B. Eggertsson Samfylkingu vissi betur, enda færi þar heiðursmaður - annað yrði að segja um Vilhjálm Þ. og gæti hann, Ólafur F., ekki óskað Vilhjálmi Þ. til hamingju með að verða orðinn borgarstjóri, þótt þeir hefðu þekkst af góðu einu í 16 ár, hefðu atburðir dagsins orðið til að strika yfir öll þau góðu kynni.

Enginn lesenda síðu minnar ætti að undrast, að ég hafi haft efasemdir um tilgang þess að ræða við Ólaf F. um meirihlutasamstarf í borgarstjórn - helst kemur mér á óvart, að viðræðurnar stóðu þó þetta lengi, áður en ákvörðun var tekin um að slíta þeim.

Ég óska Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni og mínu góða samstarfsfólki í borgarstjórnarflokknum, sem ég er að kveðja, til hamingju með að hafa náð þessum áfanga. Ég er viss um, að þess sjást fljótt merki, að nýtt og stórhuga  fólk fer með stjórn borgarinnar.

Áhugamenn um spuna í fréttamennsku ættu að leggja sig fram um að fylgjast með því, hvernig úrslit kosninganna eru túlkuð í fjölmiðlum og af vinstrisinnum. Fundinn er einhver einn þráður og síðan spunnið út frá honum - þannig var til dæmis allan sunnudagin sagt frá því í fréttum NFS, að einhver vinstri sveifla hefði orðið í kosningunum og var Sigmundur Ernir borinn fyrir þeim sleggjudómi. Hvaða vinstri sveifla? Ekki frá Sjálfstæðisflokknum - hann bætti við sig fylgi. Er Frjálslyndi flokkurinn, flokkur vörubílstjóra og trillukarla að mati Mogrunblaðisns vinstri flokkur? Varla - en hann bætti verulega við sig fylgi. Framsóknarflokkurinn er hinn dæmigerði miðflokkur og hefur almennt frekar viljað skilgreina sig til vinstri, að minnsta kosti sem félagshyggjuflokk - hann tapaði fylgi. Samfylkingin var ekki að bæta neinu við sig en það gerðu hins vegar vinstri/græn - það er sem sagt sveifla til vinstri meðal vinstri flokkana - en alls engin vinstri sveifla á almennan stjórnmálakvarða.

Þá er sérkennilegt að gera úrslit kosninganna í Reykjavík árið 2002 að einhverri grunnstærð í umræðum um stöðu Sjálfstæðisflokksins og finna síðan út, að fylgisaukning flokksins frá þeim tíma skipti í raun litlu máli, af því að þar sé aðeins um 300 atkvæði að ræða. Þessi 300 atkvæði duga hins vegar til að fjölga borgarfulltrúum sjálfstæðismanna um einn og án þeirrar fjölgunar, hefði verið mun erfiðara fyrir flokkinn að mynda meirihluta í borgarstjórn. Spuninn um 300 atkvæðin er stundaður til að gera lítið úr Sjálfstæðisflokknum en hann fellur um sjálfan sig, þegar við blasir, að flokkurinn hefur tögl og hagldir í borgarstjórn Reykjavíkur - auk þess sem talnaleikurinn tekur ekki mið af því að á kördag núna var kjörsókn í Reykjavík töluvert minni en 2002 eða aðeins 77,1%%.

Við að kynna mér úrslitin nánar sannfærist ég betur en áður um gloppurnar í kosningafréttunum á kjördagsnótt. Að Sjálfstæðisflokkurinn hefði unnið hreinan meirihluta í Grundarfirði var ekki skýrt í mínum huga, eftir að hafa fylgst með sjónvörpunum þá um nóttina. Raunar er sérstakt ánægjuefni, að í öllu sveitarfélögum á Snæfellsnesi er Sjálfstæðisflokkurinn með hreinan meirihluta.

Síðan er það talið um, að Samfylkingin hafi náð 30% fylgi á landsvísu. Morgunblaðið birtir í dag töflu, sem á að sýna þetta. - Þegar niðurstöður á heildarfylgi flokkanna á þeirri töflu eru lagðar saman verður útkoman 105,3%. Ég hallast að því, að fylgi Samfylkingarinnar sé ofreiknað um þessi 5,3% og sé því í raun tæplega 25% á landsvísu. Þegar taflan er skoðuð sést, að Morgunblaðið eignar Samfylkingunni 57,8% fylgi S-lista í Vesturbyggð og 60,4% fylgi S-lista í Höfðahreppi. Þeir, sem þekkja aðstæður á þessum stöðum, vita, að alls ekki er unnt að eigna Samfylkingunni þessa lista, þótt þeir noti bókstafinn S.

Þeir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Björn Ingi Hrafnsson sátu fyrir svörum í Kastljósi í kvöld og voru spurningarnar um aðdraganda þess, að þeir náðu samkomulagi um meirihluta heldur undarlegar. Samkvæmt þeim hefði mátt ætla, að þeir félagar hefðu verið að vinna einhver voðaverk með því að tala saman - samtöl til að leiða mál til lykta er þó helsta tæki stjórnmálamanna til að ná árangri í starfi sínu. Ef ekki má beita því tæki eins og menn telja skynsamlegast hverju sinni, er fokið í flest skjól.