10.5.2006 22:29

Miðvikudagur, 10. 05. 06.

Lærdómsríkt er að fylgjast með því af hvílíku offorsi ráðist er að starfsmönnum Kastljóss af Baugsmönnum og málsvörum þeirra. Öll fjölmiðlahlið Baugsmálsins er sérstakt rannsóknarefni, sem ekki kemur til kasta löglærðra dómara. Væntanlega taka einhverjir fjölmiðlalærðir hana til skoðunar og halda þeim þætti málsins saman.

Nú er þau komin í hár saman Ólafur F. Magnússon frambjóðandi frjálslyndra, og Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður og kosningastjóri vinstri/grænna í Reykjavík, á síðum Morgunblaðsins. Þau eru að metast um umhyggju sína fyrir umhverfinu. Eftir að þessir sjálfskipuðu umhverfissinnar neituðu að styðja þá tillögu okkar sjálfstæðismanna, að áformin um flutning Háskólans í Reykjavík á svæðið milli Nauthólsvíkur og Öskjuhlíðar færu í umhverfismat, hætti ég að hlusta eftir því, sem frjálslyndir og vinstri/grænir höfðu að segja um umhverfismál í borgarstjórn Reykjavíkur.

Ég skil ekki, hvernig sú stefna Ólafs F. Magnússonar að hafa flugvöllinn í Vatnsmýrinni þykir trúverðug, þegar litið er til þess, að hann vill Háskólann í Reykjavík við austurenda flugvallarins og í raun ofan í flugvallarsvæðið, sé til dæmis litið til athafnasvæðis flugdeildar Landshelgisgæslu Íslands. Mér heyrist ein af röksemdum Ólafs F. vera, að hann vilji flugvöllinn áfram á sínum stað vegna öryggismála og sjúkraflugs. Hvernig fer sú skoðun saman við það, að Háskólinn í Reykjavík ryðjist inn á athafnasvæði þyrlusveitar landhelgisgæslunnar?

Mér var bent á, að Blaðið hefði rætt um þá undarlegu kröfu varamanns Ólafs F. í borgarstjórn, að flugvöllurinn yrði fluttur á Álftanes og fólkið þaðan í viðlagabúðir á Keflavíkurflugvelli og forsetinn til Viðeyjar. Hvers vegna skyldi Ólafur F. hvergi spurður um þessa skoðun varamanns síns? Eða hvernig hann ætlar bæði að hafa Háskólann í Reykjavík og flugvöllinn á sama stað?