25.5.2006 21:53

Fimmtudagur, 25. 05. 06.

Fórum og skoðuðum útskriftarsýningu nemenda í Listaháskóla Íslands í Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsinu.

Ég heimsótti nokkrar kosningaskrifstofur Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og kynntist góðum baráttuanda þar.

Af því, hvernig samherjar Dags B. Eggertssonar rita um hann í Morgunblaðinu þessa síðustu daga fyrir kjördag, má draga þá ályktun, að þeir telji hann hafa farið halloka í kosningabaráttunni. Mér sýndist hann ekki heldur ná sér neitt á strik á kosningafundi NFS í Gyllta salnum á hótel Borg í kvöld. Tilraunir Dags B. til að gera lítið úr skoðunum Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar eða sjálfstæðismanna og láta eins og þeir séu marklitlir, vegna þess að þeir séu í of hlutlausum gír, finnst mér grátbroslegar, þegar ég hugsa til þess, hvernig Dagur B. talaði í kosningabaráttunni 2002 og taldi sér það helst til ágætis, að vera ekki í neinum stjórnmálaflokki heldur óháður og hlutlaus.

Til marks um veikleikamerki í baráttunni til að auka vinsældir Dags B. má nefna innrammaða stuðningsyfirlýsingu Þórólfs Árnasonar í Morgunblaðinu í dag. Menn þurfa ekki að hafa tekið oft þátt í kosningabaráttu til að átta sig á því, að ekki er óskað eftir yfirlýsingu af þessu tagi, nema fokið sé í flest skjól. Þá var skrýtið lesendabréfið í Morgunblaðinu þar sem óskað var eftir endursýningu á þættinum Sjálfstætt fólk með Degi B. á Stöð 2I, af því að Dagur B. hefði staðið sig svo afburðavel í þættinum. Bréfritari ritar bréfið í trausti þess, að þátturinn verði aldrei endursýndur, enda er það ekki hið raunverulega markmið hans, heldur hitt að koma því að hjá lesendanum, að Dagur B. hafi staðið sig vel, en sú skoðun gengur þvert á umræður meðal almennings um þáttinn.

Þetta er sérkennileg kosningataktík, svo að ekki sé meira sagt.

Björn Ingi Hrafnsson var kampakátur í NFS í kvöld, enda sýndi Gallup könnun, að hann væri að skríða inn í borgarstjórn á kostnað 8. manns Sjálfstæðisflokksins - svo segja framsóknamenn, að sjálfstæðismenn séu að hafa af þeim fylgið og bera sig aumlega! Í Reykjavík er vandi framsóknarmanna sá, að enginn veit almennilega fyrir hvað þeir standa í borgarmálum, þegar Alfreð Þorsteinsson er ekki lengur hið gamalkunna andlit þeirra.