19.5.2006 22:39

Föstudagur, 19. 05. 06.

Skondið er að fylgjast með viðbrögðum samfylkingarfólksins Dags B. Eggertssonar og Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur borgarstjóra við samgöngustefnunni, sem R-listinn samþykkti í borgarstjórn sl þriðjudag, en meginmarkið stefnunnar er að sporna gegn notkun fjölskyldubílsins.

Mér þótti undarlegt, að þessi tillaga væri tekin til umræðu og afgreiðslu á síðasta borgarstjórnarfundi fyrir kosningar. Þar munu hagsmunir vinstri/grænna líklega hafa ráðið, því að þeir hafa í 12 ár háð heilagt stríð gegn fjölskyldubílnum í borgarstjórn og nú hafa þeir vafalaust viljað nýta síðasta tækifæri sitt í borgarstjórn til að hafa frumkvæði að enn einni umræðunni um málið. Auðvitað hefði verið unnt að stöðva þá innan R-listans sáluga, ef vilji hefði verið til þess.

Spyrja má vegna viðbragða samfylkingarfólksins, eftir að það samþykkti tillögu vinstri/grænna, hvers vegna þau Dagur og Steinunn Valdís tóku ekki af skarið um gjaldskyldu eða ekki á bílastæðum stofnana borgarinnar og við framhaldsskóla og háskóla, áður en tillagan kom til atkvæða. Bæði Björk Vilhelmsdóttir, samfylkingarkona, og Árni Þór Sigurðsson, vinstri/grænn, túlka samþykktina á þann veg, að í henni felist skref til gjaldskyldu starfsmanna borgarinnar og skólanema.

Dagur B. Eggertsson var ekki á fundi borgarstjórnar, þegar samgöngustefnan var þar til umræðu og afgreiðslu. Mörg ummæli hans um stefnuna og framkvæmdaáætlunina á grundvelli hennar bera þess merki, að hann viti ekki um, hvað málið snýst. Þrátt fyrir fjarveru sína hefur Dagur B. verið iðinn við að segja fjölmiðlum frá því, hvað gerðist á borgarstjórnarfundinum.

Ný skoðanakönnun Fréttablaðsins, sem birtist í dag sýnir enn á ný sterka stöðu Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Framsóknarflokksfylgið minnkar á nýjan leik en frjálslyndir fá meira fylgi en áður. Eftir að hafa fylgst með málflutningi frjálslyndra í borgarstjórn í fjögur ár, er mér hulin ráðgáta, hvers vegna fylgi þeirra mælist nú um 7% í skoðanakönnun.  Óvild Ólafs F. Magnússonar í garð fyrrverandi flokksfélaga sinna innan Sjálfstæðisflokksins er ekki jafnáberandi nú og fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar eða oft á kjörtímabilin. Líklega gerir Ólafur F. sér von um einhvers konar samstarf við Sjálfstæðisflokkinn að kosningum loknum. Hann veit sem er, að fyrir smáflokk er ekkert upp úr því að hafa að friðmælast við þá, sem mælast með álíka mikið fylgi og hann eða Samfylkingin.