22.4.2008 18:52

Þriðjudagur, 22. 04. 08.

John Vinocur ritar um samskiptin við Rússland í The International Herald Tribune og ræðir þar meðal annars um ferðir rússneskra sprengiflugvéla í nágrenni Íslands.

Var í hádegisviðtali á Stöð 2 og ræddi um áfangaskýrslu um stöðu lögreglumála, sem kynnt var föstudaginn 18. apríl.

Nú berast fréttir um, að Ísland sé kjörinn vettvangur fyrir friðarviðræður Palestínumanna og Ísraela. Málsvarar þess framtaks ættu að flýta sér að samþykkja tillögu mína um varalið lögreglu. Hugmyndin á bakvið liðið er meðal annars, að lögreglan geti samkvæmt ótvíræðum heimildum í lögum kallað lið sér til aðstoðar við viðburði af þessu tagi. Ætti þingflokkur Samfylkingarinnar að afla sér fræðslu um nauðsynlegar löggæsluaðgerðir í tilefni slíkra funda, svo að hann geti gengið í takt við þá, sem vilja stuðla að því, að Ísland verði alþjóðlegur fundarstaður fyrir stríðandi fylkingar í útlöndum.