27.4.2008 21:31

Sunnudagur, 27. 04. 08.

Í pistli í vikunni sagði ég frá erindi í Rótarýklúbbi Reykjavíkur um trúverðugleika seðlabanka. Í erindinu var sagt frá því, að Paul Volcker hefði verið sá seðlabankastjóri Bandaríkjanna, sem ávann bankanum traust og trúverðugleika með staðfestu sinni á níunda áratugnum. Í nýjasta hefti The Economist er rætt um Seðlabanka Íslands og stefnu hans um þessar mundir undir forustu Davíðs Oddssonar og sagt:

„Traditionally, Iceland has staved off inflation through high interest rates. Mr. Oddsson has taken to interest-rate rises with a zeal not seen since Paul Volcker ran America's fed in the 1980s.“

Þegar Volcker leiddi bandaríska seðlabankann til trúverðugleika, var ráðist hart að honum úr öllum áttum og hann talinn alltof ósveigjanlegur. Kannski verður samlíkingin í The Economist til þess, að einhverjir íslenskir fjölmiðlar rifji upp fyrir okkur baráttu Volckers og árangur hans.

Eftirskrift: Vegna þess, sem að ofan segir, barst mér ábending um, að Örn Arnarson, blaðamaður á Viðskiptablaðinu, hefði skrifað í síðasta helgarblað þess um verðbólgubaráttu Volckers. Örn hefur raunar lagt á það áherslu í fréttaskýringum sínum, að það leysir ekki nein vandamál að slaka á peningamálastefnunni til þess að eyða verðbólguvanda og hefur þá vísað til aðgerða Volckers.