10.4.2008 22:45

Fimmtudagur, 10. 04. 08.

Hóf daginn í Lögregluskóla ríkisins með því að flytja setningarávarp á ráðstefnu að frumkvæði fíkniefnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, þar sem meðal annars var rætt um alþjóðlega glæpastarfsemi.

Furðulegt er, að haldið sé áfram að ræða um embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum, eins og komið hafi þruma úr heiðskíru lofti og klofið embættið í þrjá hluta. Staðreynd er, að um árabil hefur embættið verið rekið með halla. Í ár keyrir um þverbak og embættinu er stefnt í þrot, ef marka má áætlun lögreglustjórans. Vilja málsvarar óbreytts ástands slíka stjórn á fjármálum opinbers embættis? Ég er ekki talsmaður þess og samþykkti ekki heldur tillögur lögreglustjórans um uppsagnir starfsmanna, þegar allt stefnir í óefni. Ég hef lagt til betri framtíðarleið út úr krónískum fjárhagsvanda embættisins.

Gunnar Svavarsson, formaður fjárlaganefnar og þingmaður Samfylkingar, var ómyrkur í máli síðsumars 2007 um nauðsyn þess, að stjórnendum embætta yrði haldið við efni fjárlaga. Nú má skilja Lúðvík Bergvinsson, formann þingflokks Samfylkingar, á annan veg. Hafa beri fjárlög að engu og ráðuneyti samþykki rekstraráætlanir, sem taki ekkert mið af fjárlögum.

Ég velti fyrir mér, hvort starfsmenn vilji í raun frekar leið lögreglustjórans um uppsagnir, en leiðina, sem ég hef kynnt um, að hver starfsþáttur innan embættisins falli undir ráðuneyti, sem ber ábyrgð á honum og þannig verði þeim tryggt starfsöryggi. Þessir tveir kostir eru í boði.